Systkinin Hulda Maregrét og Ólafur Brynjarsbörn sluppu vel
Systkinin Hulda Maregrét og Ólafur Brynjarsbörn sluppu vel
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég var á beinum vegarkafla og vissi hreinlega ekki af mér fyrr en bíllinn rásaði í kantinum. Þá reif ég í stýrið, rykkti til vinstri og sté á bremsurnar.

Ég var á beinum vegarkafla og vissi hreinlega ekki af mér fyrr en bíllinn rásaði í kantinum. Þá reif ég í stýrið, rykkti til vinstri og sté á bremsurnar. Þá skipti engum togum að bíllinn tók flugið og valt fjóra hringi og kom niður á toppnum langt fyrir utan veg. Sem betur fer var ég í belti og bróður mínum varð til happs að vera í öryggisstól í aftursætinu,“ segir Hulda Margrét Brynjarsdóttir á Akranesi.

Mesta mildi þykir að ekki hafi farið verr þegar fólksbíll sem Hulda ók valt skammt norðan við Hofsós. Bæði lögregla og fulltrúar tryggingafélags þakka góðum öryggisbúnaði hve vel fór, enda þótt bíllinn sé dæmdur ónýtur eftir byltuna. Slíkt er þó léttvægt, miðað við að fólk slapp að mestu ómeitt.

Reif í og töluverð átök

„Þetta reif víða í og því fylgdu töluverð átök þegar beltin gripu mig í veltunum. Mín fyrsta hugsun þegar bíllinn hafði stöðvast var að gæta að því hvað hefði orðið um átta ára gamlan bróður minn, Ólaf, sem var í aftursætinu og ég þurfti raunar að skríða inn í bílinn til að komast að honum. Hann var fyrst ofurlítið vankaður og spurði hvað hefði gerst, en áttaði sig mjög fljótt,“ segir Hulda.

„Hann spurði hvað hefði eiginlega gerst og benti mér strax á hvar blæddi úr höfðinu á mér. Ég skeytti hins vegar lítið um það; tók hann á hné mér og dró hann úr öryggissessunni sem hann var á. Hún bjargaði líklega því að ekki fór verr; festingar milli sætis og baks brotnuðu eins og á að gerast í tilvikum sem þessu og yfir sessunni voru góð öryggisbelti. Þetta fór því eins vel og hugsast gat.“

Biðu eftir næsta bíl

Hulda leitaði símans síns í bílnum eftir veltuna en fann hvegi. Hún hugðist því ganga að nærliggjandi sveitabæ eftir veltuna og kalla þar eftir aðstoð. Hún sá þó fljótt að sér væri það um megn. Meðan hún leitaði símans síns í oltnum bílnum stóð bróðir hennar uppi á þjóðvegi og beið næsta bíls sem kom ekki löngu síðar. Bílstjóri þess bíls hringdi í Neyðarlínuna og komu lögregluþjónar og sjúkraflutningamenn frá Sauðárkróki stundu síðar og var Hulda þá flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhynningar. Þar kom í ljós að meiðsli hennar voru minniháttar og hún gat fljótt snúið til baka og út í Ólafsfjörð – þangað sem förinni hafði verið heitið.

Sigrún A. Þorsteinsdóttir, forvarnafulltrúi VÍS, segir barnabílstóla hafa rækilega sannað gildi sitt. Slysið við Hofsós sé órækt vitni þess og raunar tvær aðrar nýlegar bílveltur. Þar hafi lögregla þakkað það því, að ekki fór illa, að börnin voru í aftursæti og í barnabílstól miðað við þyngd og aldur barns.

Skilningur fer vaxandi

„Það er mikilvægt að fólk velji öryggisbúnaðinn alltaf í samræmi við aldur og þyngd barns,“ segir Sigrún og bendir á að barn þurfi minnst þrjá stóla á þroskaskeiði sínu, svo að hámarksöryggi sé tryggt og búnaður henti stærð barnsins. Margir freistist þó til þess að hætta of snemma að nota þann búnað sem barnið er í, þ.e. áður en barnið hefur náð þeirri þyngd sem búnaðurinn er gefinn upp fyrir og fari yfir í næsta búnað fyrir ofan eða eingöngu bílbelti ef barnið er í síðasta stólnum. Fyrst þegar börn eru orðin 36 kg sem er um tíu til tólf ára aldur sé öruggt að leyfa þeim að sitja eingöngu í bílbelti.

„Skilningur á þessum sjálfsögðu öryggisatriðum er sífellt að vaxa. Könnun sem gerð var við leikskóla í fyrra sýndi þó að 3% barna komu með foreldrum sínum í skólann án þess að vera í neinum öryggisbúnaði og 8% þeirra eingöngu í bílbelti sem er mjög miður,“ segir Sigrún og bætir við að lífshættulegt geti verið fyrir börn að sitja fyrir framan virkan loftpúða í framsæti nema þau hafi náð 150 cm hæð þar sem þau geta ekki mætt því mikla höggi sem öryggispúðinn gefur fyrr. Sigrún segir börn ávallt best varin í aftursæti og í þar til gerðum öryggisbúnaði sem hefur svo rækilega sannað gildi sitt.

sbs@mbl.is