Björg Jóhannsdóttir fæddist að Holti í Svínadal í A-Húnavatnssýslu 26. febrúar 1916. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 20. júní 2011.

Foreldrar hennar voru Jóhann Guðmundsson, f. 5 nóvember 1887, d. 11. ágúst 1949 og Fanný Jónsdóttir, f. 14. mars 1891, d. 4. júlí 1958. Björg átti tvær systur, Sofíu, f. 22. júní 1920, d. 28. júní 1974 og Bryndísi, f. 24. maí 1924, d. 29. nóvember 2010.

Björg giftist 6. október 1938 Ólafi Kr. Magnússyni, f. 6. desember 1911, d. 24. janúar 2010, frá Völlum á Kjalarnesi. Foreldrar hans voru Magnús Jónasson, f. 11. apríl 1888, d. 10. janúar 1971 og Jórunn Ólafsdóttir, f. 7. september 1888, d. 19. apríl 1947. Börn þeirra eru: 1) Jóhann, f. 18. desember 1942, maki Jeanne Miller, f. 1. janúar 1945. Börn þeirra eru: a) Ólafur Kristinn, f. 1964, maki Valborg Guðsteinsdóttir, f. 1964, og eiga þau tvo syni. b) Fanný Björg, f. 1978, maki Sverrir Árnason, f. 1978, og eiga þau tvö börn. 2) Sigrún, f. 12. júlí 1948, maki Helgi Bergþórsson, f. 6. apríl 1946. Börn þeirra eru: a) Ólafur Magnús, f. 1970, sambýliskona hans er Berit Noesgaard Nielsen, f. 1970, og eiga þau þrjú börn. b) Vilborg, f. 1971, maki Jón Þór Þorgeirsson, f. 1965, og eiga þau fjögur börn. c) Bergþór, f. 1974, og á hann tvo syni. d) Björgvin, f. 1976, maki Dagný Hauksdóttir, f. 1978, og eiga þau þrjú börn.

Björg gekk í farskóla þrjá vetur fyrir fermingu, átta vikur hvern vetur. Hún var í Kvennaskólanum í Reykjavík tvö skólaár, 1932-1934. Eftir það dvaldi hún í Holti fram að giftingu. Hún kom víða við á langri ævi. Hún kenndi handavinnu telpna við barnaskólann í Sólgörðum í Fljótum og síðar á Klébergi. Hún var meðal stofnenda Kvenfélagsins Esjunnar á Kjalarnesi og ritari þess í hartnær tuttugu ár. Þá sat Björg í varastjórn slysavarnadeildar Kjalarneshrepps og einnig í varastjórn Þorsteins Ingólfssonar, sjálfstæðisfélags Kjósarsýslu í allmörg ár. Eftir að Björg og Ólafur fluttu til Reykjavíkur vann hún sem sjálfboðaliði við afgreiðslu í verslun Rauða krossins á Landspítalanum v/Hringbraut.

Útför Bjargar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 30. júní 2011, kl. 13.

Þá er komið að hinstu kveðju til elsku ömmu. Stund sem maður er aldrei viðbúinn þó hún hafi verið yfirvofandi síðastliðnar vikur.

Minningar okkar systkinanna um ömmu eru líkar þó minningar Óla Kristins séu frá Klébergi og minningar Fannýjar úr Bólstaðarhlíðinni. Amma var hin klassíska staðalímynd ömmu, mjúk með hlýjan faðm og alltaf í svuntu yfir kjólnum. Sífellt að sýsla eitthvað í eldhúsinu, baka kökur og steikja kleinur, taka á móti gestum og bera bakkelsið og kaffi á borð. Ef hún var ekki í eldhúsinu sat hún í stofunni í stólnum sínum og prjónaði eða las dönsku blöðin. Síðustu árin í Bólstaðarhlíðinni var það þó orðið þannig að ekki þýddi að koma í heimsókn meðan þátturinn Leiðarljós var í sjónvarpinu því amma fylgdist með honum af miklum áhuga og fékk maður litla athygli á meðan og fékk að afgreiða sig sjálfur í eldhúsinu.

Amma var dugleg við að kenna okkur hina ýmsu hluti, t.d. krosssaum og að spila á spil og fór Óli Kristinn oft með henni í Húnvetningafélagið til að spila félagsvist. Einnig var hún óþreytandi að reyna að kenna okkur bæjarnöfn og heiti á fjöllum í Hvalfirðinum þegar farið var upp að Súlunesi. Árangurinn var ekki eins og hún ætlaðist til, henni eflaust til mikillar armæðu. Hún hafði líka gaman af að segja okkur sögur frá uppvaxtarárum sínum í Holti. Hvernig var að alast upp í torfbæ með systrum sínum og hvernig lífið í sveitinni var á fyrri hluta síðustu aldar. Einnig frá fyrstu búskaparárum hennar og afa og sögur af pabba okkar og systur hans þegar þau voru lítil.

Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur barnabörnin þegar á þurfti að halda og þegar langömmubörnin fóru að koma eitt af öðru passaðirðu alltaf, ásamt afa, upp á að þau fengju sínar afmælis- og jólagjafir og spurðir alltaf um þau ef við komum ein í heimsókn.

Nú er komið að leiðarlokum og við kveðjum þig með þökk fyrir allt það sem þú gafst okkur sem veganesti út í lífið.

Ólafur Kristinn

og Fanný Björg.

Elsku amma, nú hefur þú kvatt okkur 95 ára að aldri. Við höfum verið lánsöm að eiga ykkur afa að svo lengi. Þið voruð samhent hjón og þannig minnumst við ykkar.

Margar af okkar bernskuminningum tengjast ykkur. Þið afi heimsóttuð okkur reglulega í sveitina og við biðum spennt eftir komu ykkar. Jólin voru á næsta leiti þegar þið komuð með skötuna á Þorláksmessu og þó svo við hefðum engan áhuga á að borða hana þegar við vorum börn þá fannst okkur hún vera órjúfanlegur hluti af jólaundirbúningnum. Páskaeggin komu með ykkur að sunnan um páskana og svo var gaman að fá ykkur í sumarstörfin á meðan þið höfðuð þrek til.

Þú varst alin upp í sveit og þér þótti gaman að fá tækifæri til að hjálpa til við sveitastörfin, taka þátt í heyskapnum og rýja fé.

Það var gaman að koma til ykkar afa þegar þið bjugguð á Klébergi. Í minningunni var skólinn svo ótrúlega stór og það var svo spennandi að fá að skoða hann. Þú sýndir okkur skólastofurnar, hvar nemendurnir sváfu og hvar þú kenndir handavinnu. Þú varst mikil handavinnukona og prjónaðir og heklaðir eins lengi og þú hafðir tök á.

Gestrisnin einkenndi þig. Ávallt þegar við komum í heimsókn barst þú í okkur allskonar kræsingar og það var auðvitað eins þegar þið fluttuð í Bólstaðarhlíðina. Fyrst fengum við kaffitíma, svo var sest inn í stofu og þá fengum við ís og nammi – svo spurðir þú hvort það mætti ekki bjóða okkur aðeins meira! Enginn skyldi fara svangur frá þér og langömmubörnin kunnu sko einnig vel að meta þetta. Þau minnast þín með hlýju en þú hafðir mikinn áhuga á því sem við og börnin okkar höfðum fyrir stafni og hvattir okkur óspart áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur.

Þú varst einstaklega minnug og fróð um menn og málefni og þekktir landið okkar vel. Þú varst mjög félagslynd og dugleg að taka þátt í félagsstarfi. Þá hafðir þú gaman af því að miðla þekkingu þinni á ættfræði og segja frá atburðum fyrri tíma. Þú varst stoltur Húnvetningur og hafðir alla tíð sterkar taugar til æskustöðva þinna, Holts í Svínadal.

Við þökkum þér samfylgdina, elsku amma, minningar um góða konu munu ylja okkur afkomendunum.

Ólafur Magnús, Vilborg, Bergþór og Björgvin.

Björg móðursystir var elst Holtssystranna þriggja og hún fer þeirra síðust til fundar við skapara sinn. Ævidagur hennar var langur og lengi erilsamur, húsmóðir í heimavistarbarnaskóla um áratugi. Ég þekkti fremur lítið til hennar á þeim árum utan þegar hún og Ólafur komu í Holt að sumarlagi og dvöldu þá jafnan nokkra daga í senn. Óþörf ferðalög úr sveitinni suður þekktust vart þá og heimsóknir svíndælskra barna að Klébergi því fátíðar.

Kynni mín af Björgu, og okkar Ragnheiðar beggja, hófust að marki þegar við stunduðum háskólanám í Reykjavík. Þá var Klébergsárunum að ljúka og Bólstaðarhlíðin tók við. Þangað lá leið okkar alloft en eftir að við fluttum til Akureyrar varð lengra í milli. Starfa minna vegna átti ég samt stundum leið til Reykjavíkur og leit þá gjarnan inn. Þau hjónin voru vanaföst, áttu sér sinn stólinn hvort í notalegri stofunni og brátt varð hinn þriðji öruggur samastaður minn. Fyrst var gefið konfekt og sýndar myndir af barnabörnunum en hverri heimsókn lauk svo í eldhúsinu þar sem drukkið var sterkt kaffi, notið meðlætis og skrafað.

Það voru ekki endilega sögur dagsins sem hæst bar því hún frænka mín naut þess að rifja upp gengna daga. Hún sagði sögur af fólki og stundum atburðum sem hún hafði ekki lifað sjálf. Þá tók frásagnargáfan gjarnan mikinn sprett. Af slíkum sögum eru til dæmis minnisstæðar frásagnir af kaupstaðarferðum foreldra hennar og föðurforeldra til Blönduóss. Komið var við í verslun eða á heimili Jóhanns og frú Alvildu Möller en seinna hjá Lucinde dóttur þeirra og Gísla sýslumanni Ísleifssyni. Frá þessum ferðum var sagt heima í Holti, Björg nam frásagnirnar og þuldi löngu síðar heilu samtölin af innlifun eins og hún hefði verið þar sjálf: „Þá sagði pabbi: Nei, heyrið þér mig nú, Gísli, er þetta mögulegt? En frú Lucinda sló sér á lær og sagðist muna það sem gerst hefði í gær.“ Sagnalist Bjargar hvíldi á gömlum grunni og hún rann auðveldlega inn í frásagnir sínar, hætti að greina á milli sín og sögupersónanna, tímamörk urðu óljós eða hurfu jafnvel alveg. Í hita leiksins átti hún það til að spyrja: „Þú manst eftir henni, er það ekki?“ Og skipti þá litlu þótt áratugum skeikaði um hvort slík minning væri möguleg. Kannski tjáði Björg hug sinn og sögur af sömu ástríðu og þeirri sem varðveitti menningararfinn í munnlegri geymd uns húnvetnskir forverar hennar tóku að skrásetja á bókfell.

Björg var einörð sjálfstæðiskona eins og hún átti sterkt kyn til, bróðurdóttir Magnúsar dómsmálaráðherra. Framsóknarmenn og kratar fengu litla náð fyrir augum hennar en kommar voru að því leytinu skárri að stundum mátti vita fyrir hvað þeir stæðu. Um slíkt var gaman að ræða, jafnvel kýta, en alltaf fór maður auðugri af fundi þeirra Ólafs.

Með fráfalli Bjargar eru orðin þau tímamót að við, börn hennar og systurbörn, erum tekin við öllum hlutverkum elstu kynslóðar ættar okkar. Sá er réttur gangur tímans og í arfleifð Bjargar og annarra genginna eigum við ómetanlegt veganesti til framtíðar.

Við Ragnheiður þökkum kærlega fyrir samfylgdina.

Bragi Guðmundsson.

Ólátur og Brök. Þetta voru nöfnin sem ég gaf nágrönnum mínum, skólastjórahjónunum á Klébergi, Ólafi Kr. Magnússyni og Björgu Jóhannesdóttur. Ég bjó með foreldrum mínum í Fólkvangi og átti oft erindi upp í skóla. Ég þurfti að fá mjólk og köku hjá Björgu og lesa með Ólafi. Mér hefur oft orðið hugsað til þess hversu erfitt það er að vera skólastjóri í litlu sveitarfélagi þar sem allir þekkja alla og agavandamál sem taka þarf á snertir vini þína og nágranna. Skólastjórinn er oft félagsráðgjafi, heimavistarstjóri og barnaverndarnefnd líka.

Í litla barnaskólanum á Klébergi, þar sem pabbi minn hafði líka verið í skóla þegar hann var lítill, þar var Ólafur skólastjóri og lengi eini kennarinn. Hann kenndi allt nema handavinnu stúlkna. Sú kennsla fór fram við eldhúsborðið hjá Björgu. Íþróttir voru kenndar í Fólkvangi og áður en búningsklefarnir þar voru tilbúnir urðu krakkarnir að skipta um föt uppi í skóla og hlaupa svo í Fólkvang í leikfimisbúningum.Við hlið skólahússins var annað minna hús, þar sem íbúð þeirra Bjargar og Ólafs var auk salerna, sturtuklefa og smíðastofu. Skrifstofa Ólafs var í íbúðinni og handavinnukennsla við eldhúsborðið svo ekki var nú mikið einkalíf hjá þeim hjónum. Allir sem voru í skólanum á Klébergi hljóta að muna eftir Trygg, hundinum þeirra. Ég hafði líka það embætti að sækja mjólk upp í skóla. Mjólkurbíllinn kom þangað og skildi eftir mjólk og ég sótti svo hyrnurnar í netapoka til Bjargar. Ég var alla mína barnaskólagöngu á Klébergi. En leiðir skildi þegar ég fór í gagnfræðaskóla og hjónin fluttu í bæinn. Það var svo ekki löngu seinna. Þá var ég ólétt og bjó hjá þáverandi kærasta í Hlíðunum. Þá fór ég að taka eftir manni sem strunsaði um hverfið með sérkennilegu göngulagi og miklum stafsveiflum, eitthvað kannaðist ég við sveiflurnar og fylgdi manninum eftir. Þá var þetta Ólafur á heimleið í Bólstaðarhlíðina.

Ég komst að því að hjónin væru nágrannar mínir og bankaði upp á. Mér var boðið inn og datt beint inn í gamla farið, mjólk og köku hjá Björgu, sem þótti ég of ung fyrir kaffi, þó ég væri með bumbuna út í loftið. Nú, við Ólafur skoðuðum bækur. Hvað ertu að lesa núna, Guðrún mín? Ekki var minnst á það einu orði að óléttan væri fullsnemma á ferðinni. Engar skammir, bara gamla góða: „Hvað ertu að lesa?“

Ég missti aftur samband við þau í langan tíma. Hitti þau jú uppi í skóla á afmælishátíð skólans. Ólafur dó og minningargreinin sem ég skrifaði um hann var of löng og fékkst ekki birt. Þess vegna ákvað ég að skrifa þessa kveðju til þeirra beggja og þakka fyrir gamla daga, mjólk og kökur og lestrarumræður, auk kennslu í mörg ár.

Björgu sá ég fyrir skömmu, þá var hún komin á Hrafnistu og pabbi minn var þar í stuttan tíma í hvíldarinnlögn. Pabbi fór og heilsaði upp á Björgu en hún var horfin inn í Alzheimer og mundi ekki eftir honum. Enda erfitt að tengja saman gamlan karl í hjólastól og pjakkinn og prakkarann Jón Leví sem pissaði í stígvélið hans Ólafs eftir einhverjar skammir.

Bestu kveðjur og þakkir til Bjargar og Ólafs og samúðarkveðjur til ættingja.

Guðrún Jónsdóttir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Vald. Briem.)

Elsku Björg, ég þakka ykkur hjónunum fyrir alla velvild ykkar í minn garð. Guð geymi ykkur. Jóhanni, Sigrúnu og fjölskyldu þeirra og öðrum ástvinum votta ég mína dýpstu samúð. Farðu í friði, elsku Björg.

Gunnhildur.

Að heilsast og kveðjast er lífsins gangur en þó er alltaf sárt að kveðja einhvern sem manni þykir mjög vænt um og það á við í dag þegar ég kveð þig, elsku Björg.

En ég veit að þú og Ólafur hafið hist á ný. Þið Ólafur hafið alltaf verið mér svo góð og eigið pláss í mínu hjarta og mun ég ætíð minnast ykkar með hlýhug.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Sigrúnu, Jóhanni, barnabörnum og öðrum aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð.

Kveðja,

Halldóra og börn.