„Þessi tískusveifla hefur heldur nátt undan láta nú í seinni tíð og nú eru ljósu litirnir aftur ráðandi, kannski vegna þess að hinir skæru og áberandi litir eru fljótir að verðast,“ segir Þórður Davíðsson.
„Þessi tískusveifla hefur heldur nátt undan láta nú í seinni tíð og nú eru ljósu litirnir aftur ráðandi, kannski vegna þess að hinir skæru og áberandi litir eru fljótir að verðast,“ segir Þórður Davíðsson. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Daufgræni liturinn verður héðan í frá nefndur Þingvellir og sá dökkgrái Sprengisandur

Þjóðlegar nafngiftir eru áberandi á nýju litakorti Málningar hf. sem kemur út nú um mánaðamótin. Sum nöfnin liggja raunar alveg beint við og eru við hæfi, daufgræni liturinn verður héðan í frá nefndur Þingvellir og sá dökkgrái Sprengisandur. Aðrir litir sem málning nefnir nú með nýjum hætti eru Seyðishólar, Skaftafell, Látrabjarg, Rauðisandur, Rauðhólarautt Árbyrgi, Laki, Hornvík og svo mætti áfram telja.

„Í kringum aldamótin og á árunum eftir það voru skærir litir talsvert áberandi og eftirsóttir. Hús, jafnvel í heilu hverfunum, voru máluð í skærum litum til dæmis rauðum, gulum, bláum og svo mætti áfram telja. Þessi tískusveifla hefur heldur mátt undan láta nú í seinni tíð og nú eru ljósu litirnir aftur ráðandi, kannski vegna þess að hinir skæru og áberandi litir eru fljótir að veðrast svo sér á þeim,“ segir Þórður Davíðsson, sölustjóri hjá Málningu hf. í Kópavogi.

Brúngrátt eða skært

En þótt ljósu litirnir sem raunar hafa alltaf verið ráðandi á Íslandi hafi aftur náð yfirhöndinni er fólk í öllu falli tilbúið að prófa eitthvað nýtt, að sögn Þórðar. Þegar verið er að mála til dæmis fjölbýlishús þykir sjálfsagt að hafa svalir eða glugga í einhverjum öðrum og jafnvel framandlegum liti til dæmis hlýjum brúngránum tón, múrsteinsrauðum eða skærum litum.

„Séu húsin í einhverjum öðrum lit en þeim ljósa, til dæmis rauðum, þá þykir sjálfsagt að hafa þökin í öðrum lit og öðruvísi, svo sem dökkgráum eða kaffibrúnum. Ég sé þetta bara núna í þessum töluðum orðum þar sem ég stend og horfi hér yfir þökin á húsunum í Kópavogi,“ segir Þórður sem segir algengt að áður en hafist sé handa um að mála hús séu settar litaprufur á vegg; svo sem hálfur fermetri af hverjum lit. Slíkt auðveldi húseigendum valið og í ríkari mæli síðustu misserin verði ljósu litirnir fyrir valinu.

Bara að hann hangi þurr

„Við hjá Málningu og Slippfélaginu erum þeir einu sem framleiða málningu hér innanlands. Málning annarra fyrirtækja kemur erlendis frá. Við teljum okkur þetta til tekna, enda setjum við ekkert á markað nema að undangengnu þróunarstarfi sem er raunar stór hluti af starfsemi okkar. Við erum til dæmis með prófunarrekka hér fyrir utan bæinn þar sem málning frá okkur er reynd við erfiðustu aðstæður þar sem rigningin lemur og vindurinn blæs,“ segir Þórður sem bætir við að greinilegt sé að margir ætli að nota sumarið til að mála hús sín. Málning hafi enda selst vel að undanförnu – ekki síst sunnanlands. Veður fyrir fyrir norðan hafi hins vegar verið rysjóttara og ekki beint viðrað fyrir málningarvinnu.

„Og allt er þetta undir veðrinu komið og þeirri von að hann hangi þurr, eins og í laginu var sungið. Við skulum vona að svo verði,“ segir Þórður að síðustu.

sbs@mbl.is