Kauphöll Íslands
Kauphöll Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Hagar hafa lokið uppgjöri við olíufélagið Skeljung, vegna ábyrgðar á skaðabótakröfum sem viðskiptavinir Skeljungs kunna að hafa lagt fram vegna olíusamráðs sem stóð yfir á árunum 1996-2001.

Fréttaskýring

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Hagar hafa lokið uppgjöri við olíufélagið Skeljung, vegna ábyrgðar á skaðabótakröfum sem viðskiptavinir Skeljungs kunna að hafa lagt fram vegna olíusamráðs sem stóð yfir á árunum 1996-2001. Þess uppgjörs gætir í ársreikningi Haga, en þar færa Hagar sér 123 milljónir fjármagnstekna, en áður hafði fyrirtækið gjaldfært talsvert hærri upphæð vegna ábyrgð á skaðabótum vegna þátttöku Skeljungs í olíusamráðinu.

Keypt og selt fram og til baka

Hagar keyptu allt hlutafé Skeljungs af Sólvöllum ehf. í október 2004, félagi í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar (sem þekktastir eru fyrir eignarhald sitt á fjárfestingafélaginu Fons, sem nú er gjaldþrota). Stærstur hluti kaupverðsins var greiddur með hlutabréfum í Högum. Pálmi Haraldsson, sem var á þessum tíma stjórnarformaður Skeljungs, gegndi áfram þeirri stöðu. Í mars 2006 keypti eignarhaldsfélagið Uppspretta hins vegar allt hlutafé Skeljungs, en Uppspretta var eitt dótturfélaga Fons.

123 milljóna bakfærsla

Samkvæmt Finni Árnasyni, forstjóra Haga, var liður í kaupum Uppsprettu á Skeljungi að Hagar héldu eftir allri hugsanlegri skaðabótaábyrgð vegna olíusamráðs. Hagar hefðu lokað því máli með 123 milljóna króna bakfærslu, í uppgjöri fyrir reikningsárið sem endaði 28. febrúar og skilað var inn til ársreikningaskrár í síðasta mánuði. En í nóvember síðastliðnum bárust fregnir þess efnis að forsvarsmenn Haga hefðu tilkynnt Skeljungi að Hagar teldu sig ekki skuldbundna til þess að greiða skaðabætur Skeljungs, sökum þess að félagið endaði í höndunum á Glitni við hrun bankanna í október 2008. Þessu mótmæltu Skeljungsmenn þá. Samkomulag virðist hins vegar hafa náðst, samanber eftirfarandi upplýsingar í ársreikningi Haga: „Á árinu var gengið frá samkomulagi við Skeljung hf. vegna þessa máls með lokagreiðslu.“

Lán frá Baugi greitt upp

Morgunblaðið greindi frá því í desember 2009 að þrotabú Baugs Group hefði gjaldfellt kúlulán upp á tæplega einn milljarð króna sem upphaflega var veitt árið 2004. Allt stefndi í að málið endaði fyrir dómstólum, enda sögðu forsvarsmenn Haga að munnlegt samkomulag hefði verið við Baugsmenn að framlengja gjalddaga lánsins fram til ársloka 2011. Þrotabúið og Hagar sömdu hins vegar um málið fyrir þingfestingu þess. Greiddu Hagar þrotabúinu allt lánið til baka í desember á síðasta ári.

Skráning Haga

Fyrir áramót

Skráning Haga á hlutabréfamarkað hefur margoft verið rétt handan við hornið, ef svo má að orði komast. Útboðslýsing var langt komin síðasta haust, þegar Arion banki breytti um stefnu í söluferli félagsins. Nú er talið líklegt að skráningu félagsins á markað verði loks lokið fyrir áramótin.