Alþingi Það þarf ekki að vera leiðinlegt þó svo að lífskjörin rýrni í landinu.
Alþingi Það þarf ekki að vera leiðinlegt þó svo að lífskjörin rýrni í landinu. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Ljóst er að forsendur fjárlagafrumvarpsins eru brostnar og það sama gildir um flestar þær hagspár sem hafa verið lagðar fram. Alþingi gleymdi nefnilega að framlengja heimildir fólks til að taka út séreignasparnað í ár.

Ljóst er að forsendur fjárlagafrumvarpsins eru brostnar og það sama gildir um flestar þær hagspár sem hafa verið lagðar fram. Alþingi gleymdi nefnilega að framlengja heimildir fólks til að taka út séreignasparnað í ár. Sem kunnugt er hefur einkaneysla í krafti úttektar á séreignasparnaði verið helsti driftkraftur þess hagvaxtar sem mældist á þriggja mánaða skeiði í fyrra og varð tilefni til þess að ráðamenn ályktuðu sem svo að kreppunni væri lokið.

Þar sem Alþingi gleymdi að framlengja heimildina og enn er ekki útlit fyrir að sú tuga prósenta aukning á fjárfestingu sem hagspár gerðu ráð fyrir í ár verði að veruleika má gera ráð fyrir að sá litli hagvöxtur sem gert var ráð fyrir í ár láti á sér standa.

Hins vegar hafa menn á Alþingi ekki af þessu stórkostlegar áhyggjur. Sem kunnugt er nýtur sú skoðun vaxandi vinsælda meðal stjórnarþingmanna að hið hagfræðilega sjónarhorn sé of takmarkandi. Taka verði tillit til fleiri þátta, komist menn að þeirri niðurstöðu að tillögur að lagabreytingum muni leiða til þess að lífskjör á landinu versni markvert. Til að mynda er alls ekkert gefið að veðrið verði vont þó svo að hagvöxtur haldi áfram að dragast saman. Það þarf ekki endilega að vera leiðinlegt þó svo að atvinnuleysi blasir við.

En þrátt fyrir þetta allt skiptir ef til vill ekki sköpum hvort gleymska eða í sumum tilfellum heimska stjórnmálamanna leiði til aukinnar fátæktar og versnandi lífskjara. Þetta er allt hvort sem er afstætt eins og Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar, benti á fyrir nokkru þegar hún lét þau orð falla að hagfræðingar gætu reiknað sig niður á hvaða niðurstöðu sem er.