asdasdasd
asdasdasd
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónleikar Caribou fóru fram á Nasa við Austurvöll þriðjudaginn 28. júní 2011. Hljómsveitin Sin Fang hitaði upp.

Kanadíski stærðfræðingurinn og tónlistarmaðurinn Daniel Victor Snaith, sem kallar sig Caribou, steig loksins á svið í gærkvöldi þegar hljómleikar hans fóru fram á Nasa. Upphaflega áttu tónleikarnir að fara fram í lok maí, nánar tiltekið þann 27., en vegna æsings í Grímsvötnum urðu þeir að bíða betri tíma.

Ég er mikið fyrir raftónlist og frændur hennar og frænkur. Nýjasta plata Caribou, Swim , heillaði mig því að mörgu leyti og nokkur lög af plötunni áttu hug minn á tímabili. Hins vegar er ekki hægt að setja tónlist Caribou í einhvern ákveðinn tónlistarflokk (e. genre) þar sem verk hans eru fjölbreytileg og plöturnar mjög ólíkar.

Í samtali við Morgunblaðið fyrir tónleikana sem áttu að vera í maí sagði Daniel að hann fengi fljótt leið á því sem hann væri að gera og skipti þar af leiðandi oft um stefnu. Það sýndi sig og sannaði í gærkvöldi að maðurinn meinti það sem hann sagði. Tónlistin sem spiluð var í gær minnti lítið á plötuna Swim , heldur voru lögin sett í nýjan búning, rokkbúning. Það er nefnilega málið með Daniel að þegar hann spilar á tónleikum eru honum til halds og trausts þeir Ryan Smith, Brad Weber og John Schemersal.

Rokkbragurinn yfir lögunum höfðaði ekki beint til mín, verð ég að viðurkenna. Það var hins vegar mjög skemmtilegt að fá að heyra sérstaka útgáfu af lögunum sem þeir tóku. Inn á milli fannst mér þó erfitt að skilgreina hvaða lag var verið að spila og á köflum átti ég það til að detta alveg út, missa tenginguna við tónlistina og fara að skoða mannfólkið í kringum mig.

Mörg lögin voru þó alveg mögnuð og fannst mér þar trommarinn eiga virkilegt hrós skilið. Lokalagið var „Odessa“, sem hefur notið mikilla vinsælda víða. Þá, þegar leit ég yfir salinn, var eins og einhver hefði þrýst á stuðhnappinn. Þegar þetta magnaða lag tók enda voru gestir ekki tilbúnir til þess að kveðja. Fereykið var klappað upp og kláraði tónleikana með sæmd.

GUNNÞÓRUNN JÓNSDÓTTIR