„Ég ætla ekki beinlínis að gera neitt sérstakt í tilefni afmælisins, en það má segja að margt sé í gangi,“ segir Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir leikskólakennari, sem á 36 ára afmæli í dag.
„Ég ætla ekki beinlínis að gera neitt sérstakt í tilefni afmælisins, en það má segja að margt sé í gangi,“ segir Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir leikskólakennari, sem á 36 ára afmæli í dag. Þórhildur telur upp matarboð á föstudag, starfsmannapartí á laugardag og barnaafmæli á sunnudag. Hún hefur því í of miklu að snúast til að huga að eigin afmæli. „En ég fæ örugglega kórónu og kort frá krökkunum á leikskólanum. Þar er maður stjarna dagsins á afmælinu.“ Þannig vill til í fjölskyldu Þórhildar að fjórir af fimm fjölskyldumeðlimum eiga afmæli á fjögurra vikna tímabili í júní og júlí. Hefðin er sú að gera eitthvað saman og afmælisbarnið fær að stjórna deginum, en vegna vinnu verður þó lítið úr dagskrá hjá Þórhildi. Það kemur ekki að sök þar sem fjölskyldan er nýkomin úr ferðalagi um Norðurland sem farin var í tilefni afmælis eiginmannsins, Péturs Davíðssonar. Sumarfríið er auk þess að bresta á hjá Þórhildi í lok vikunnar, en hún segir þó að beðið verði með ferðalög þar til að afloknum slætti. Fjölskyldan býr á Grund í Skorradal og sprettan hefur verið lítil. „Svo ætlum við að grípa tækifærið og fara í einhverjar útilegur þar sem við reynum að elta sólina.“