Uppskera Óvíst er að nýjar kartöflur verði á boðstólnum um miðjan ágúst.
Uppskera Óvíst er að nýjar kartöflur verði á boðstólnum um miðjan ágúst. — Morgunblaðið/Golli
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Þetta er alls staðar þremur vikum á eftir venjulegu sumri,“ sagði Bergvin Jóhannsson, bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi og formaður Landssambands kartöflubænda, þegar hann var spurður um kartöflusprettuna.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Þetta er alls staðar þremur vikum á eftir venjulegu sumri,“ sagði Bergvin Jóhannsson, bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi og formaður Landssambands kartöflubænda, þegar hann var spurður um kartöflusprettuna. Ef veður verður gott í júlí, ágúst og september mun rætast úr, að mati Bergvins, en þó er fyrirsjáanlegt að ekki verður mikil kartöfluuppskera í haust. Kalt hefur verið í Grýtubakkahreppi í sumar en spáð er hlýnandi veðri um helgina. Þar líkt og víðast hvar fyrir norðan hefur verið sífelld norðanátt og kuldi en í gær og í fyrradag var norðanátt og suddi í Grýtubakkahreppi.

Bergvin hafði fréttir af því úr Hrunamannahreppi fyrir sunnan að þótt þar hefðu komið hlýir dagar inn á milli hefðu verið miklir kuldar um nætur. Ástandið er því svipað fyrir sunnan og norðan.

Bergvin sagði að vel hefði horft í byrjun hjá þeim sem breiddu plastdúka yfir akrana. Grösin komu upp en svo fraus allt saman. Hann sagði að grösin kæmu aftur en þetta ylli mikilli töf á sprettunni. Bergvin taldi að kartöfluuppskera yrði hvergi snemma á ferðinni í ár. Mikið þyrfti að gerast næstu daga til að nýjar kartöflur yrðu á boðstólum um eða eftir miðjan ágúst.

Dæmi eru um næturfrost í júlí og ef kartöflugrösin eru orðin mjög þroskuð þegar frystir stöðvast vöxturinn. Bergvin sagði að dæmi væru um næturfrost seint í júní en grösin hefðu náð sér aftur eftir það, þótt það hefði þýtt töf á uppskerunni.

Bergvin taldi að svipað hefði verið sett niður af kartöflum í vor og undanfarin vor. Eftir því sem hann hafði heyrt hjá bændum í Eyjafirði höfðu þeir sett niður heldur minna en venjulega en einhverjir ætluðu að bæta við sig á Suðurlandinu. Bergvin vissi ekki hvernig það hefði endað því bændur á Suðurlandi komust seint í að setja niður vegna bleytu. Sjaldan hafi verið jafn samfeldir kuldar í júní síðan árið 1979