Ásbjörn Friðriksson
Ásbjörn Friðriksson
Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandinn snjalli í liði Íslandsmeistara FH í handknattleik, gæti verið á förum frá liðinu.

Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandinn snjalli í liði Íslandsmeistara FH í handknattleik, gæti verið á förum frá liðinu. Norska meistaraliðið Haslum bauð honum að koma út til æfinga í vikunni og hélt hann til Noregs á þriðjudaginn og er væntanlegur heim aftur í dag. Haslum verður mótherji FH-inga í undanúrslitum í forkeppni Meistaradeildarinnar og það gæti svo farið að Ásbjörn myndi þá spila í búningi Haslum gegn félögunum sínum úr FH-liðinu.

Alingsås einnig inni í myndinni

„Ég er nú bara búinn að mæta á eina æfingu en mér líst vel á það sem ég hef séð. Þetta kom upp áður en dregið var í riðilinn í forkeppni Meistaradeildarinnar en auðvitað yrði það svolítið sérstakt ef ég myndi spila á móti FH,“ sagði Ásbjörn í samtali við Morgunblaðið í gær.

Það eru fleiri lið en Haslum sem eru á höttunum eftir Ásbirni en sænsku meistararnir í Alingsås eru einnig með leikmanninn í sigtinu og var Ásbjörn til skoðunar hjá liðinu áður en hann hélt til Noregs.

Ásbjörn er 22 ára gamall og hefur leikið með FH-ingum undanfarin þrjú ár en hann kom til þeirra frá Akureyri - handboltafélagi. Hann var einn besti leikmaður Íslandsmótsins á síðustu leiktíð. gummih@mbl.is