Barátta Sjúkraliðar báru saman bækur sínar á baráttufundi í gær.
Barátta Sjúkraliðar báru saman bækur sínar á baráttufundi í gær. — Morgunblaðið/Ómar
Félag sjúkraliða hélt baráttufund í gærdag til að ákveða hvaða skref yrðu tekin næst í yfirstandandi kjaradeilu við Reykjavíkurborg en ríkissáttasemjari hefur frestað viðræðunum eftir árangurslausan fund og verður næsti fundur ekki boðaður fyrr en í...

Félag sjúkraliða hélt baráttufund í gærdag til að ákveða hvaða skref yrðu tekin næst í yfirstandandi kjaradeilu við Reykjavíkurborg en ríkissáttasemjari hefur frestað viðræðunum eftir árangurslausan fund og verður næsti fundur ekki boðaður fyrr en í byrjun ágúst.

„Sjúkraliðar munu láta hart mæta hörðu. Munurinn á lægstu launakjörum hjá ríkinu og borginni er 10% eða meiri. Það er það sem við erum að gera kröfu um að verði lagfært, áður en við gerum hinn eiginlega samning, sem allir eru að gera í dag,“ segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Síðasti fundur á milli Sjúkraliðafélagsins og Reykjavíkurborgar var haldinn hinn 28. júní síðastliðinn og var árangurslaus. Á fundinum var ákveðið að fresta viðræðunum. Sjúkraliðafélagið mun hins vegar halda sáttafund vegna samningaviðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga klukkan tíu í dag í húsnæði ríkissáttasemjara.

Samningar lausir síðan 2009

Samningar hafa verið lausir síðan 2009 og síðasti samningur var gerður 2008. Um er að ræða sjúkraliða sem starfa á hjúkrunarheimilum sem Reykjavíkurborg rekur og þá sem vinna við heimahjúkrun. Að sögn Kristínar hafa sjúkraliðar sem vinna hjá heilbrigðisstofnunum ríkisins samið tvívegis á tímabilinu.

Hallur Páll Jónsson, formaður samninganefndar hjá Reykjavíkurborg, gat ekki tjáð sig um deiluna í gær þar sem málið væri komið í hendur ríkissáttasemjara.

Hjúkrunarheimilin sem um ræðir eru m.a. Seljahlíð, Droplaugarstaðir og Dalbraut, og auk þess heimahjúkrun.

Segir Kristín að sjúkraliðar vilji ekki vinna hjá Reykjavíkurborg og þeir muni líklega hætta og leita í önnur störf ef samningar nást ekki enda sé skortur á sjúkraliðum og ekki atvinnuleysi hjá stéttinni.

mep@mbl.is

Ályktun fundar sjúkraliða

Ekki hefur verið samið síðan 2008

„Undanbrögð stjórnar meirihluta borgarinnar eru þeim einum til skammar og verða ekki skilin á annan hátt en sem algjört virðingarleysi fyrir störfum kvennastétta,“ segir í ályktun fundar sjúkraliða í gær. „Verði stjórnendur Reykjavíkurborgar ekki við kröfum stéttarinnar er fyrirsjáanlegt að langlundargeð er þrotið og munu sjúkraliðar beita þeim vopnum er bíta, eða leita á annan vettvang þar sem störf þeirra eru metin að verðleikum.“