Póstburðargjald fyrir bréf undir 50 g hækkaði úr 75 krónum í 90 krónur hinn 15. júní síðastliðinn samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti. Einnig hækkuðu aðrir verðflokkar bréfa að meðaltali um 20%.

Póstburðargjald fyrir bréf undir 50 g hækkaði úr 75 krónum í 90 krónur hinn 15. júní síðastliðinn samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti. Einnig hækkuðu aðrir verðflokkar bréfa að meðaltali um 20%. Fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins að umræddar verðhækkanir séu nauðsynlegar til þess að „mæta magnminnkun og auknum kostnaði við dreifingu á bréfapósti“.

Þá segir einnig að rafræn þróun og efnahagssamdrátturinn hér á landi sem og erlendis hafi leitt til verulegs samdráttar í póstsendingum. Ennfremur er minnst á þá skyldu Íslandspósts að þjónusta allt landið og bera út í öll hús alla virka daga ársins sem hafi mikinn kostnað í för með sér.

Frekari samdráttur

„Útlit er fyrir að bréfamagn minnki enn frekar á næstu árum og spáð er að einkaréttarbréfum fækki til muna á næstu árum. Slíkri magnminnkun verður að mæta með aðgerðum á ýmsum sviðum, bæði með því að auka tekjur eftir því sem við verður komið, þar sem vænta má vaxtar, en einnig með hagræðingu í rekstri póstþjónustunnar,“ segir á heimasíðu Íslandspósts.

hjorturjg@mbl.is