Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Karl andri@mbl.is „Auðvitað er ég að fjalla um þetta svolítið eftir tilfinningu en það þarf enginn að segja mér að þrjú hundruð manns hafi brotið af sér í íslenska bankakerfinu,“ segir Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands.

Andri Karl

andri@mbl.is

„Auðvitað er ég að fjalla um þetta svolítið eftir tilfinningu en það þarf enginn að segja mér að þrjú hundruð manns hafi brotið af sér í íslenska bankakerfinu,“ segir Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands. Brynjar ritaði grein í Lögmannablaðið þar sem hann gagnrýnir þá aðferð embættis sérstaks saksóknara að gefa þeim sem kunna að búa yfir upplýsingum um viðskipti sem eru til rannsóknar réttarstöðu sakbornings við upphaf rannsóknar frekar en stöðu vitnis.

Brynjar segir málin ganga þannig fyrir sig að Fjármálaeftirlitið eða slitastjórnir bankanna sendi mál til sérstaks saksóknara þar sem t.d. er um að ræða viðskipti sem þykja tortryggileg og brjóti gegn ákvæðum laga. Það sé hins vegar gert án þess að taka skýrslur af þeim sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið. „Þá tekur embættið allan bunkann af mönnum sem þarna koma einhvers staðar við sögu, t.d. á viðkomandi deild, og þegar maður kemur svo með eitthvert manngrey, t.d. millistjórnanda, og spyr hvaða verknað hann sé grunaður um að hafa framið er fátt um svör. Embættið er með viðskipti til rannsóknar og til öryggis eru allir gerðir að sakborningum.“

Þessi aðferð hugnast ekki Brynjari sökum þess að ákveðin vandkvæði fylgja því að vera sakborningur, líkt og staðan í samfélaginu er í dag. „Því finnst mér embættið hafa farið offari í því að gera menn að sakborningum.“

Tugir mála eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara en ekkert svar barst við fyrirspurn Morgunblaðsins um það hversu margir einstaklingar hefðu hlotið stöðu sakbornings. Víst þykir að þeir séu á þriðja hundrað.

Rökstuðningur sérstaks saksóknara fyrir því að menn fái stöðu sakbornings við upphaf rannsóknar, í stað vitnis, er sá að með því hafi menn aukin réttindi samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

„Fiska í gruggugu vatni“

Að mati Brynjars er þetta öfug nálgun og menn ættu frekar að vera með stöðu vitnis í upphafi rannsóknar. Vísar hann í því samhengi í 3. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála. Þar segir: „Þeir sem rannsaka sakamál skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur.“

Þá segir hann embættið ekki alltaf hafa almennilegan grun. „Menn eru að fiska í gruggugu vatni og skoða viðskiptin. Auðvitað eru sum mál mun skýrari en það getur ekki talist líklegt að allir starfsmenn bankanna hafi verið glæpamenn.“

Brynjar tekur dæmi um bandaríska fjárfestingarbankann Lehman Brothers. „Í rannsókn hans eru ekki allir stjórnendur gerðir að sakborningum. Menn vinna þetta ekki svona. Eflaust eru skoðuð afmörkuð efni varðandi Lehman en þeir taka ekki alla starfsmenn bankans á einu bretti og segjast ætla að rannsaka viðskipti fjögur ár aftur í tímann og þeir verði bara að sætta sig að vera sakborningar á meðan.“

Úthrópanir og einelti

Brynjar tekur fram að hann telji embættið hafa staðið sig vel að mörgu leyti og Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, einnig. „Hann er mikill sómamaður og ég veit að hann fer eins varlega að mönnum og hægt er, þrátt fyrir mikinn þrýsting í samfélaginu. Hann hefur staðist ákveðinn þrýsting og ég vil hrósa honum fyrir það.“

Þrátt fyrir það hefði Brynjar viljað sjá ráðist í málin með öðrum hætti. „Þetta er svo afdrifaríkt fyrir sakborninga. Það er krafist þess að þeir séu reknir úr vinnunni. Þeir eru svo úthrópaðir, verða fyrir einelti og eiginlega öll fjölskylda þeirra. Hún er einnig gerð sek fyrir því að, í sumum tilvikum, viðkomandi starfsmaður tók kúlulán. Það eru þessi vandamál sem við erum að glíma við.“

Ennfremur bendir Brynjar á að sumir hafi verið sakborningar í rúmlega tvö ár og samkvæmt yfirlýsing sé ekki von á ákærum fyrr en árin 2013 og 2014. „Það er ekki ásættanlegt að menn, sem flestir verða líklega ekki ákærðir, séu sakborningar árum saman með tilheyrandi fjárhagstjóni og óbætanlegum miska.“