Barátta Guðjón Baldvinsson segir alltaf erfitt að spila í Færeyjum.
Barátta Guðjón Baldvinsson segir alltaf erfitt að spila í Færeyjum. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er auðvitað talað um þetta sem skyldusigur en við ætlum bara að standa undir því og vinna hérna í Færeyjum.

„Það er auðvitað talað um þetta sem skyldusigur en við ætlum bara að standa undir því og vinna hérna í Færeyjum. Þá færum við langt með að klára þetta,“ sagði Guðjón Baldvinsson, leikmaður KR, sem er komið til Færeyja þar sem liðið mætir ÍF Fuglafirði í fyrri leik liðanna í undankeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu. Fuglafjörður er í næstneðsta sæti færeysku deildarinnar en Guðjón er viss um að KR vanmeti ekki andstæðinginn.

„Rúnar [Kristinsson, þjálfari] sagði að hann hefði komið hingað tvisvar og að það væri alltaf erfitt. Færeyingarnir berjast mikið og það þýðir alls ekkert að vera með vanmat. Okkur hefur gengið vel í Evrópu undanfarin ár og ætlum að fylgja því eftir.

Þeir hafa misst einhverja af bestu mönnunum sínum en annars höfum við lítið séð eða heyrt af liðinu. Við verðum með góðan fund í kvöld þar sem við förum betur yfir liðið og hvernig við leggjum leikinn upp. Við munum samt alltaf sækja til sigurs og ég reikna með að þeir verjist aftarlega og treysti á föst leikatriði. Þetta verður baráttuleikur út í gegn og það eru alltaf erfiðir leikir, sama hver andstæðingurinn er. Ég spilaði einu sinni við 3. deildarlið KB í bikarnum sem við rétt unnum 1:0. Svo lengi sem lið verjast aftarlega og berjast vel er alltaf erfitt að brjóta þau á bak aftur,“ sagði Guðjón.

„Egilsstaðir sinnum tíu“

Hann var nýlentur í Þórshöfn þegar Morgunblaðið náði tali af honum: „Þetta er bara eins og að koma á pláss úti á landi, nema bara stærra pláss. Þetta er svolítið eins og Egilsstaðir sinnum tíu,“ sagði Guðjón léttur. sindris@mbl.is