Heimir Fjeldsted
Heimir Fjeldsted
Eftir Heimi L. Fjeldsted: "Við Suðurgötuna hinsvegar eru fá íbúðarhús, en fjölmennur kirkjugarður. Þar ríkir grafarþögn og enginn hrósar þér."

Herra borgarstjóri Jón G. Kristinsson.

Um skeið hef ég verið að velta fyrir mér hvort ekki megi taka til umræðu nokkur mál sem fara í taugarnar á okkur íbúum borgarinnar. Þetta eru smámál í þínum stóra verkahring og varla hægt að ætlast til að þú ljáir þeim hugsun, en ég vil þó reyna.

Þú lést gera Suðurgötuna að einstefnuakstursgötu frá Vonarstræti að Skothúsvegi til að hliðra til fyrir hjólreiðafólki sem þarf að hjóla úr 107 niður í ráðhús m.a. Ég hef Gísla Martein grunaðan um að hafa ruglað dómgreind þína í þessu tilviki.

Sárafáir nota þessa velvild þína, en margir líða fyrir.

Öll bílaumferð vestan að og niður í bæ fer nú um Hofsvallagötu og Túngötu og ærir óstöðuga. Við Túngötuna er barnaskóli, sjúkrahús og kirkja. Margir á gangi þvers og kruss. Verða fjölmargir fyrir miklu ónæði af þessu ráðslagi þínu og eiga þátt í þverrandi vinsældum þínum á stóli borgarstjóra. Við Suðurgötuna hinsvegar eru fá íbúðarhús, en fjölmennur kirkjugarður. Þar ríkir grafarþögn og enginn hrósar þér.

Viltu nú ekki vera svo góður að breyta þessu aftur við fyrstu hentugleika svo lífshættan minnki við Hofsvallagötu og Túngötu, næg er hún samt.

Annað mál sem mig langar að benda þér á er taxaskýlið við Hafnarstræti og Tryggvagötu. Þar sést aldrei sála, nema hvað erlendir ferðamenn bíða þar stundum eftir leigubíl sem aldrei getur stoppað því svo þung er umferðin um gatnamótin framundan. Væri ekki ráð að færa skýlið á stað þar sem það kemur að notum? Hafa þá samráð við Hreyfil/Bæjarleiðir en þar hafa menn talsvert vit á þörfum almennings.

Þriðja og síðasta athugasemd mín varðar umgengni við snarlstaði miðborgarinnar um helgar. Þar virðast þeir fáu sorpdallar sem í boði eru ekki eða lítt notaðir og sóðaskapurinn og mávagerið með ólíkindum þegar hallar undir morgun.

Væri ekki ráð að gera þær kröfur til eigenda snarlstaðanna að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum? Má þá notast við svo sem 15 metra regluna velþekktu úr öðru samhengi, eða miðlínu.

Annars finnst mér að uppgjöf liggi í loftinu hjá þér og samherjum þínum og þætti mér vænt um að þú skoðaðir þessi atriði með jákvæðum huga áður en þú afhendir veldissprotann Degi Beggu.

Höfundur er fv. kaupmaður og áhugamaður um betri borg.