Árið 1953 ákvað bókafélag sósíalista, Mál og menning, að kaupa húsið á Laugavegi 18 og reisa þar stórhýsi undir skrifstofu sína og bókabúð. Safnað var fé til smíðinnar. Ekki gekk söfnunin betur en svo, að Kristinn E.

Árið 1953 ákvað bókafélag sósíalista, Mál og menning, að kaupa húsið á Laugavegi 18 og reisa þar stórhýsi undir skrifstofu sína og bókabúð. Safnað var fé til smíðinnar. Ekki gekk söfnunin betur en svo, að Kristinn E. Andrésson, framkvæmdastjóri Máls og menningar, og Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins, leituðu 1955 til sendiherra Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík um styrk að austan. Ákveðið var að veita fyrirtækinu 250 þúsund króna lán til fimm ára.

Í desember 1959 var húsið komið undir þak. Þá birtist viðtal við Kristin í Þjóðviljanum , þar sem hæðst var að þeirri kenningu, að hann hefði fengið rússagull í húsið. Hinn faldi fjársjóður hans væri samheldni félagsmanna í Máli og menningu. Morgunblaðið vísaði þessu á bug. Félagsmenn hefðu ekki bolmagn til að leggja í húsið þær 7-8 milljónir króna, sem það kostaði.

Blaðið hafði rétt fyrir sér, eins og skjöl í Moskvu sýna. Kristinn og Einar höfðu í janúar 1959 gengið á fund sendiherra Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík og beðið um nýjan styrk. Húsið myndi kosta sex milljónir króna, og hefðu þegar verið notaðar í það tæpur helmingur þeirrar upphæðar. Kristinn endurtók styrkbeiðni sína úti í Moskvu. Virðist hann eftir rússneskum gögnum hafa fengið styrk að upphæð 500 þúsund krónur frá Kremlverjum það ár, 1959, og síðan afskrifaðar skuldir að svipaðri upphæð ári síðar. Kallaði Morgunblaðið húsið eftir það „Rúbluna“.

En nú urðu sósíalistar að útvega afganginn, fimm af sex milljónum. Einhverju hefur verið safnað með hlutafé, en eflaust hefur munað um það, að Hilmar Stefánsson, bankastjóri Búnaðarbankans, lánaði Máli og menningu fé í húsið gegn því, að sósíalistar styddu 1961 son hans, Stefán Hilmarsson, til að taka við stöðu hans. Ekki þurfti að hafa þungar áhyggjur af endurgreiðslu bankalánsins. Verðbólgan sá um að minnka það, sífellt verðfall krónunnar. Væri þess vegna ekki réttara að kalla húsið „Krónuna“ en „Rúbluna“? Eða jafnvel „Rúbluna og Krónuna“?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar.

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is