Edda Sigrún Svavadóttir fæddist í Vestmannaeyjum 1 janúar 1936. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 29.júní 2011. Foreldrar Eddu voru hjónin Svavar Þórðarson, f. 11. febrúar 1911, d. 10. janúar 1978 og Þórunn A. Sigjónsdóttir, f. 26. febrúar 1913, d. 25.júlí 1998. Edda var elst sex systra. 2) Dóra G., d. 3. febrúar 2004, gift Halldóri Pálssyni, 3) Friðrikka, gift Hrafni Oddsyni, 4) Áslaug, gift Ingvari Vigfússyni, 5) Svava, í sambúð með Agli Ásgrímssyni, 6) Sif, gift Stefáni Sævari Guðjónssyni. Edda giftist þann 24. júní 1954 Garðari Þ. Gíslasyni, kafara og vélvirkja. Edda og Garðar eignuðust sex börn. 1) Svavar, f. 24. apríl 1954, kvæntur Valdísi Stefánsdóttur, börn þeirra; Baldvin Þór, kvæntur Hörpu Sigmarsdóttur, börn þeirra: Valdís Bára, Sigmar Þór, Marel og Arnór. Edda Sigrún, í sambúð með Ragnari Þór Ragnarssyni. 2) Gísli Þór, f. 17. janúar 1956, kvæntur Elvu Ragnarsdóttur, börn þeirra: Anna Lára, í sambúð með Birni Friðrikssyni, barn þeirra: Tanja Rut. Garðar Þorvaldur. 3) Eggert, f. 3. febrúar 1957, giftur Svövu Björk Johnsen, börn þeirra: Edda Björk, í sambúð með Tómasi Þóroddssyni, börn Eddu: Alexandra Bía og Sara Sif. Anton Örn. 4) Sigríður, gift Hjalta Hávarðssyni, börn þeirra: Hávarður Þór, kvæntur Alinu Marin. Erna Dögg og Breki Örn. 5) Lára Ósk, f. 16. október 1961, gift Jósúa Steinari Óskarssyni, börn Láru frá fyrra hjónabandi: Þórey Anna, í sambúð með Bóas Eiríkssyni, barn þeirra: Elísa. Svavar Kári og Guðmundur Ásgeir. 6) Garðar Rúnar, f. 17. nóvember 1962, kvæntur Rindu Rissakorn, börn þeirra: Sæþór Örn og Sigríður Lára. Edda fæddist í húsinu London í Vestmannaeyjum og bjó þar og síðan að Heiðavegi 11 sín uppvaxtarár. Edda og Garðar byrjuðu búskap árið 1954 á Heiðavegi 11 og reistu síðan sér einbýlishús að Illugagötu 50, fluttu þau þangað árið 1971 og bjó hún þar til dauðadags. Árið 1964 stofnuðu Edda og Garðar fyrirtækið Vélaverkstæðið Þór ásamt öðrum og vann Edda hjá því meðan heilsan leyfði. Edda átti við heilsubrest að stríða í mörg ár. Útför Eddu fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 9. júlí 2011, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku besta amma mín, ég trúi ekki að það sé komið að kveðjustund,  það er svo sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. Ég var ekki tilbúin til að kveðja þig því við áttum eftir að gera svo margt saman. En ég er virkilega lánsöm að hafa fengið að kynnast þér og er mjög glöð hvað við vorum nánar. Því eftir standa margar góðar minningar sem ég mun geyma í hjarta mér.

Allar þær samverustundir sem við áttum saman eru margar og ógleymanlegar. Þegar ég fer að rifja upp samverustundir okkar þá er það mér efst í huga þegar það var nánast fastur liður að koma til ykkar afa í hádegismat á Illó. Þar var alltaf einhvað gott að borða. Þú sást alltaf til þess að maður fór aldrei svangur frá þér. Svo var fastur liður hjá okkur tveimur að horfa saman á Nágranna og það mátti sko enginn trufla okkur á meðan. Ef maður var dapur og vantaði hjálp þá varst þú alltaf svo glöð að depurðin hvarf og vandamálin með.

Ekki var ég sú eina sem naut ástúðar þinnar og Breki bróðir og öll barnabörnin þín komu reglulega í spjall og góðgæti sem voru alltaf á boðstólnum.

Ætíð man ég hvað þú varst spennt yfir því að  ég fengi bílpróf því þá gætum við farið saman á rúntinn og í bæinn hvenær sem okkur hentaði. Lokins kom að því að ég fékk bílpróf, það þótti okkur ekki leiðinlegt enda voru bæjarferðinar ófáar. Ýmist að skoða bæjarlífið , fara á kaffihús eða jafnvel kíkja í kaffi í vinnunna til mömmu. Einnig fannst þér gott að geta hringt í Ernu þína og biðja hana að skjótast fyrir þig í bæinn að kaupa eitt og annað.

Ég man hvað það gladdi þig mikið þegar ég ákvað að verða hárgreiðsludama því þá gæti Erna þín sett í þig rúllur og gert þig fína um hárið hvenær sem er, þér fannst svo gott að láta dekra við þig. Elsku amma mín því miður fórstu áður en ég náði að greiða þér eins og þig hlakkaði svo til.  Ég greiði þér samt í huganum, því þegar ég byrja í skólanum þá mun ég hugsa til þín og læra fyrir þig. þú vildir alltaf vera svo fín enda varstu stórglæsileg kona og alltaf svo vel til höfð. Þú fórst ekki út úr húsi nema vera ánægð með sjálfa þig.  Þú spurðir mig alltaf áður en við fórum út: er ég í lagi svona?, er þessi jakki í lagi? og að sjálfsögðu  varstu alltaf í lagi. Fyrir síðustu jól veiktistu illa en náðir þér uppúr því eins og alltaf því þú varst svo jákvæð og lífsglöð. Í vetur veiktistu nokkrum sinnum en við vissum sem var að þú kæmir alltaf aftur heim uppá Illó vegna jákvæðninnar. Allar þær spítalaferðir sem við mamma fórum til þín þá varstu alltaf svo glöð og ef við spurðum hvernig þú hefðir það þá fengum við alltaf sama svarið: ég er orðin nokkuð góð, hvenær fæ ég að fara heim?. Þessar stundir eru okkur ógleymanlegar.  En því miður veiktistu einu sinni enn og vaknaðir ekki í það skiptið til að segja hvenær fæ ég að fara ég heim?

Það er óbærileg sorg að missa ömmu sína sem maður elskar útaf lífinu. En nú ertu komin heim til Guðs og ég veit að þar líður þér vel. Ég veit að þú munt ætíð fylgja  mér í gegnum mitt líf og veita mér þá jákvæðni og lífgleði sem þú hafðir.  Minnigarnar sem ég á eru alltof margar og ég gæti skrifað svo miklu miklu meira. En minningar lifa með mér alla mína tíð, elsku amma. Þú varst frábær í alla staði, ég gæti ekki átt betri ömmu. Þú varst langbesta amman í öllum heiminum og einnig varst líka besta vinkona mín. Lífsgleðin var það sem einkenndi þig og þú tókst á móti öllum með opnum örmum sama hver það var.

Takk elsku amma fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Ég mun alltaf hugsa um þig og þú átt stað í hjarta mínu.  Ég á eftir að sakna þín mjög mikið en ég mun minnast þín með gleði í hjarta.

Þegar einhvað virðist þjaka mig
þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,
þá er eins og losni úr læðingi
lausnir öllu við.
Þó ég fái ekki að snerta þig
veit ég samt að þú ert hér,
og ég veit að þú munt elska mig
geyma mig og gæta hjá þér.
(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Þúsund kossar amma, ég elska þig af öllu mínu hjarta og mér þykir óendanlega vænt um þig. Guð geymi þig og ég veit að þér mun líða vel.
Ég bið góðan Guð að styrkja afa og mömmu á þessum erfiðu tímum.
Þín að eilífu,

Erna Dögg Hjaltadóttir.