Ekkert barn ætti að verða svikið af heimsókn í Ævintýragarðinn.
Ekkert barn ætti að verða svikið af heimsókn í Ævintýragarðinn. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrefna Björk Sverrisdóttir er ung athafnakona sem tók sig nýlega til og lét verða að veruleika að opna skemmtigarð fyrir börn á Íslandi ásamt sambýlismanni sínum, Bjarna M. Sigurðarsyni.
Hrefna Björk Sverrisdóttir er ung athafnakona sem tók sig nýlega til og lét verða að veruleika að opna skemmtigarð fyrir börn á Íslandi ásamt sambýlismanni sínum, Bjarna M. Sigurðarsyni.

„Ég kynntist svipuðum stað í Noregi og fannst þetta vanta hér á landi. Svo þegar við rákumst á húsnæði sem hentaði í Skútuvogi 4 þá ákváðum við að kýla á þetta. Staðurinn er 1.200 fermetrar og af þeim fara 900 fermetrar í leiksvæði fyrir börnin,“ segir Hrefna og bætir því við í léttum tón að íslensk börn séu vonandi ekki frábrugðin öðrum börnum og hafi jafn gaman af því að skemmta sér og leika og börn í öðrum löndum.

Staður fyrir allt barnafólk

Ævintýragarðurinn er staður fyrir alla fjölskylduna. „Þegar fólk kemur með börnin sín þá getur það fengið sér kaffi, lesið blöð eða vafrað á netinu á kaffihúsinu okkar sem er afmarkað frá leiksvæðinu. Foreldrarnir geta þá verið í rólegheitum meðan börnin leika sér og fá útrás á leiksvæðinu. Foreldrunum er að sjálfsögðu velkomið að vera á leiksvæðinu allan tímann og fylgjast með börnunum.“

Hrefna tekur það þó sérstaklega fram að staðurinn sé ekki ætlaður sem barnapössun og að fólk sé að koma með börnin sín.

„Við erum auðvitað með starfsfólk sem fylgist með, en fólk sem á yngri börn verður auðvitað að hafa augu með þeim. Það getur vel verið að einhvern tíma verði boðið upp á einhverskonar pössun en það er ekki í spilunum í dag.“

Leiksvæðið sem er 900 fermetrar hefur að geyma trampólín, hoppukastala, boltaland, loftbyssur, körfuboltakörfu og margt fleira. „Ásamt leikföngum og leiktækjum þá ákváðum við að styðjast við skógarþema við hönnun staðarins,“ segir Hrefna – en börnin leika sér undir skógarhljóðum sem óma um leiktækjasalinn. Á leiksvæðinu er einnig að finna afmarkað svæði fyrir yngstu börnin.

„Börn missa sig oft í leik þegar gaman er og því ákváðum við að hafa sérstakt svæði fyrir börn upp að 3 ára aldri til að tryggja að þau geti leikið sér á öruggu svæði. Á því svæði erum við með púða, lítið boltaland, dýnur og stærri mjúk leikföng,“ segir Hrefna og bætir því við að almennt aldurs-takmark sé tólf ára. „Eftir tólf ára aldurinn stækka börn svo hratt og verða unglingar. Þó svo eldri börn hafi eflaust gaman af því að leika sér þá erum við að hugsa um að yngri börnin geti leikið sér án þess að eiga á hættu að lenda saman við stærri börn og slasa sig. Öryggi og hreinlæti skiptir okkur máli og biðjum við t.d. alla um að fara úr skóm, líka fullorðna, til að gæta hreinlætis fyrir alla.“

Afmælisherbergi

„Við erum með tvö afmælisherbergi og veitingasölu og getum tekið við stórum og smáum veislum. Við sjáum þá um allar veitingar en leyfum auðvitað foreldrum að koma með afmælistertuna. Þegar fólk kaupir afmælispakkann hjá okkur þá bjóðum við upp á pítsur, pylsur, gos eða djús ásamt smá glaðningi frá okkur sem er t.d. íspinni eða súkkulaðistykki,“ segir Hrefna.

Opið verður alla daga frá kl. 12 til 19 á kvöldin.

vilhjalmur@mbl.is