Bergþóra Bachmann fæddist í Reykjavík 6. júní 1980. Hún lést í umferðarslysi í Basel í Sviss 1. júlí 2011. Foreldrar hennar eru Eyrún Þóra Bachmann, f. 30. apríl 1960, og Guðmundur Bergur Antonsson, f. 24. nóvember 1956. Þau skildu. Foreldrar Eyrúnar Þóru eru Bergþóra Bachmann, f. í Hafnarfirði, og Baldur M. Stefánsson, f. í Reykjavík, og foreldrar Guðmundar Bergs voru Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Anton Guðjónsson, bæði látin. Albróðir Bergþóru er Ingi Steinn Bachmann, f. 9. maí 1986. Systur Bergþóru sammæðra eru Guðríður Jónsdóttir Bachmann, f. 21. maí 1992, Ástrós Jónsdóttir Bachmann, f. 2. nóvember 1995, og Sóley Rut Jónsdóttir Bachmann, f. 4. janúar 1999. Systkini Bergþóru samfeðra eru Guðfinnur Urban, f. 23. apríl 1992, og Svana Sigurrós Urban, f. 11. desember 1994. Fósturfaðir Bergþóru er Jón Grétar Gunnarsson, f. 3. júlí 1967. Foreldrar hans eru Guðríður Jónsdóttir og Gunnar Kr. Sigurðsson. Bergþóra ólst upp í Breiðholtinu í Reykjavík, að frátöldu einu ári á Stykkishólmi og öðru í Stokkhólmi í Svíþjóð. Bergþóra lauk grunnskólanámi frá Breiðholtsskóla árið 1996. Hún varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 2001. Brautskráðist sem Margmiðlunarfræðingur frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2008. Hún sótti ýmis námskeið tengd áhugamálum sínum, s.s. í myndlist og fékk réttindi sem prófstjóri í skapgerðarmati frá Hundaræktarfélagi Íslands. Hún var ötull áhugamaður bæði um hundahald og ljósmyndun og sótti sér ýmsan fróðleik, ekki síst erlendis. Loks sótti hún þýskunám í Sviss eftir að hún fluttist þangað í júní 2008. Í Basel kynntist Bergþóra eftirlifandi unnusta sínum, Rob Hitchman, f. 9. ágúst 1977. Hann er frá Rugby, Englandi. Hann starfar hjá Hewlett Packard í Basel. Bergþóra tók að sér grafíska hönnun fyrir svissneskt tímarit og skrifaði einstaka greinar og tók einnig ljósmyndir fyrir tímaritið frá 2009-2010. Ljósmyndaáhugi hennar vaknaði í alvöru þegar hún var við nám í Margmiðlunarskólanum og var hún mjög virk við ljósmyndun alla tíð síðan, t.d. sem virkur meðlimur í ljósmyndaklúbbum í Basel og Zürich. Bergþóra vann síðustu æviár sín sem Product Data Administrator (umsjón með gagnayfirliti) hjá alþjóðlega lyfjafyrirtækinu Bayer Consumer Care AG, staðsettu í miðborg Basel. Þar leið henni vel og hún blómstraði. Bergþóra gekk í skátahreyfinguna 1992 og skátafélagið Skjöldunga. Þar undi hún sér við leik og störf næstu árin og eignaðist fjölmarga góða vini. Hún fór á Jamboree-mót 1995 í Hollandi ásamt nærri 250 íslenskum skátum og þá eru ótaldar útilegur og skálaferðir sem hún fór í. Bergþóra var mikill dýravinur, hún flutti inn fugla og átti hundana Arwen og Tecklu. Var virk í Dobermann-deild HRFÍ og tengist hundaklúbbum bæði á Íslandi og í Sviss. Hún vann með skólanum hjá Símanum, hjá Mílu, á dýraspítala og í dýrabúð. Hún vann að heimasíðugerð fyrir félagasamtök og einstaklinga, hérlendis og erlendis. Útför Bergþóru fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 15. júlí 2011, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hún Bergþóra mín er dáin.

Þögn hálfa sekúndu sem virkaði eins og mannsaldur. Síðan flugu ótal samhengislausar hugsanir í gegnum huga minn, allar gagnslausar. Þetta getur ekki verið. En það er, því miður. Ung frænka mín aðeins 31. árs gömul lenti í umferðarslysi á leið til vinnu og beið bana. Engin orð fá lýst svona stundu og engin orð geta breytt því sem gerðist. Ég var svo lánssamur að mega þekkja Bergþóru, eða Beggu, allt frá fæðingu. Við móðir hennar höfum alltaf verið mjög náin systkini og svo er Guðbjörg Eva dóttir mín aðeins 6 mánuðum eldri og í reynd elsta vinkona Bergþóru. Þetta er undirstaðan af mjög sterku sambandi sem varaði allt hennar líf. Myndbrotin verða mörg, minningar frá ýmsum tímum og atburðum. Ég gæti rifjað upp skírn hennar eða fermingu, báðar tengdar Hallgrímskirkju, eða brosandi rifjað upp ískaldan sumardaginn fyrsta, eitthvert árið, og séð fyrir mér vinkonurnar Bergþóru og Guðbjörgu Evu nær bláar af kulda, en brosandi, þrammandi með skátunum í átt að Hallgrímskirkju til skátamessu. Í dag mun ég aftur mæta til sömu kirkju, í þetta sinn í gjörsamlega ótímabæra jarðaför hennar. Hér vel ég mér hins vegar að koma svolítið nær í tíma, eingöngu vegna þess að þá er ég að rifja upp lífið sem Bergþóra sem sjálfstæður einstaklingur hafði mótað sér og tileinkað. Hún var mjög sérstök. Margir upplifðu Bergþóru sem hæga, feimna og dálítið lokaða en eigi að síður ákveðna í skoðunum og oft stutt í stríðni. Hún var þó alltaf blíð og kurteis í viðmóti. Það var fyrir mig ánægjulegt að kynnast lítillega nánasta vinahópi hennar í Basel. Fyrst og fremst til þess að upplifa af eigin raun hvaða persónu þau upplifðu í Bergþóru og hvers virði Bergþóra var þeim. Í Sviss eru fjölmargir í miklum sárum eftir sviplegt fráfall hennar. Vinahópurinn safnaðist saman á slysstaðnum þar sem búið er að festa upp mynd af henni. Þar eru fjöldi blóma og kertaljós í tugatali. Það var safnast saman við Rínarbakka, á eftirlætisstað Bergþóru, minningar rifjaðar upp og rýnt í myndbrotin í árstraumnum. Hópurinn hefur þjappað sér saman og er gjörsamlega óþreytandi til aðstoðar við fjölskyldu Bergþóru á Íslandi á þessum erfiða tíma. Þann tíma sem ég dvaldi með þeim, eftir slysið, hlustaði ég á frásagnir tengdar Bergþóru og upplifði þessi sterku tengsl þeirra á milli. Henni er lýst sem glaðlegri konu og hamingjusamri. Hún geislaði af orku og athafnasemi og dreif þannig fjölda manns saman vegna sameiginlegra áhugamála af ýmsum toga eða hreinlega til að eiga saman gleðistundir, oftar en ekki niður við ána Rín þar sem vinirnir glöddust saman, spjölluðu, grilluðu og jafnvel tóku sundsprett í fremur straumþungri ánni. Bergþóra var driffjöðurin, hugmyndasmiðurinn, atorkusemin og límið sem batt þetta allt saman, að sögn vina hennar. Fjölmargir sögðust hafa kynnst þessum stóra hópi fyrir tilstilli Bergþóru. Allir nánir vinir Bergþóru þekkja þessa lýsingu og sögurnar eru margar.Bergþóra var baráttukona og átti kannski stutt að sækja það en föðuramma hennar var Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir verkakona, baráttukona og fyrrum þingmaður. Fátt var Bergþóru óviðkomandi. Hún var mjög ákafur dýravinur og áhugamaður um umönnun og ræktun dýra. Hún átti 2 hunda þó annar hafi verið vistaður á Íslandi og einnig reyndi hún fyrir sér með innflutning fugla. Hún var einnig einarður áhugamaður um réttindi fatlaðra auk fleiri málefna. Lét hún oft til sín taka á þessum vettvangi og skrifaði bæði í blöð og á bloggsíður. Eitt sinn réð hún sig til dýralæknisstofu til þess að kynnast betur umönnun dýra. Þegar hún áttaði sig á hve stór hluti starfsins var fólgin í svæfingu kettlinga og hvolpa hætti hún. Þessi háttur í dýrahaldi samrýmdist ekki hugsjón hennar. Það er við hæfi að tileinka Bergþóru þessa tilvitnun:

Hún var sú hugrakkasta. Aldrei hrædd við að prófa eitthvað nýtt. Tilraunaflugmaður lífsins og það besta við hana var að þegar hún brotlenti dustaði hún bara af sér rykið og var um leið tilbúin í flugtak aftur.

Bergþóra var mjög stolt af Íslandi, landi og þjóð. Þetta mátti greina hvar sem var. Á vinnustöð hennar var mynd með íslenska fánanum, íbúðin hennar var rækilega prýdd fánanum okkar. Sjálf bar hún nisti um háls með Íslandi sem skraut. Þegar blásið var til fagnaðar var oftar en ekki eitthvað þar sem minnti á Ísland og ég veit að við bakka Rínar hljómaði á stundum reggietónlist með hinum íslensku Hjálmum. Eitt af því fáa sem ekki féll í góðan jarðveg var lyktin af íslenskum harðfiski sem hún laumaðist stundum til að hafa með sér í vinnunni, auk þess sem sviðakjammarnir vekja augljóslega enn blendnar tilfinningar hjá vinahópnum. Bergþóra starfaði síðustu æviár sín sem Product Data Administrator hjá lyfjafyrirtækinu Bayer Consumer Care AG. Þar fann hún sig vel í starfi og var mjög vel liðin. Það hafði sterk áhrif á mig að heimsækja vinnustað Bergþóru, skömmu eftir andlátið. Samstarfsmenn hjá Bayer töluðu mjög fallega um hana og lýstu sem glaðlegri og kurteisri konu, en þó orkumikilli og stöðugt færandi inn ferskar hugmyndir í starf þeirra. Hjá fyrirtækinu var umhyggja og samúð með aðstandendum, en einnig mikil sorg samstarfsmanna. Á starfsstöð hennar hjá Bayer er stór ljósmynd af henni ásamt blómaskreytingu og kveðjukorti. Í Basel kynntist Bergþóra eftirlifandi unnusta sínum Rob Hitchman, frá Rugby Englandi. Þeim leið mjög vel saman og hún var ákaflega hamingjusöm.

Það eiga margir um sárt að binda við afar sviplegt fráfall Bergþóru, á Íslandi sem erlendis, fjölskylda, unnusti og vinir. Það verður erfið leið fyrir fjölskylduna til baka úr djúpum dal sorgar en þá er mikilvægt að vita að ljósið sigrar myrkrið að lokum. Dauf skíma leynist þegar vel er að gáð. Góður guð verður leiðbeinandi og verndari. Elsku Eyrún Þóra systir mín. Ég veit að þetta eru ólýsanlega sársaukafullir dagar og að við öll fjölskylda Bergþóru erum yfirkomin af sorg. Góður guð mun styrkja ykkur og varðveita. Ég, Björg og börn okkar sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og biðjum guð að blessa ykkur.

Friðgeir Magni Baldursson.