21. maí 1994 | Menningarblað/Lesbók | 1281 orð

Hólabrík - skápur leyndardómanna Um altarisbríkina miklu á Hólum Eftir GUNNAR

Hólabrík - skápur leyndardómanna Um altarisbríkina miklu á Hólum Eftir GUNNAR KRISTJÁNSSON Taflan var ekki "mynd" í nútímaskilningi orðsins. Hún var hluti af hinni heilögu messu.

Hólabrík - skápur leyndardómanna Um altarisbríkina miklu á Hólum Eftir GUNNAR KRISTJÁNSSON Taflan var ekki "mynd" í nútímaskilningi orðsins. Hún var hluti af hinni heilögu messu. Allt frá því á fjórðu öld var messan í kirkjunni túlkuð sem þátttaka í þeirri messu sem fram fer óaflátanlega á himni þar sem dýrlingar og aðrir hólpnir menn lofa Guð.

yrir um að bil fimm hundruð árum var velmegun á Hólum í Hjaltadal. Þá sátu staðinn dugmiklir biskupar hver fram af öðrum, skip héldu uppi reglubundnum siglingum við meginlandið, einkum Noreg, og samskipti við útlönd voru veruleg. Á þessum tíma var einn veglegasti kirkjugripur okkar Íslendinga settur upp fyrir ofan altarið í dómkirkjunni á Hólum. Enginn veit þó hvenær hann kom né hvaðan. Þeim spurningum er enn ósvarað. En freistandi er að velta þeim fyrir sér.

Ýmislegt bendir til að taflan sé frá þeim landsvæðum þar sem Hansakaupmenn í Þýskalandi stunduðu verslun. Bergen var meginbækistöð þeirra í Noregi og þaðan voru greiðar samgöngur við Þýskaland. Í Bergen settu Hansakaupmenn upp þýska vængjatöflu í Maríukirkjunni sem var þeirra eigin kirkja. Sú tafla minnir um margt á vængjatöfluna á Hólum. Og þegar það er haft í huga að Gottskálk Nikulásson, biskup á Hólum frá 1498­1520, var ættaður af áhrifafólki í Bergen dettur manni fyrst í hug sá möguleiki að hann eigi heiðurinn af því að hafa keypt töfluna og komið henni á skipi sínu hingað til lands. Hins vegar segir þjóðsagan að eftirmaður hans, Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Hólum, eigi þennan heiður. En um þetta verður ekki fullyrt enn sem komið er.

Sagan segir að menn Danakonungs, sem komu lútherskum sið á hér á landi um miðja sextándu öld með talsverðum fyrirgangi, hafi reynt að flytja töfluna til Danmerkur en ekki tekist.

Nú er vængjataflan ævinlega höfð opin og þá blassa við litríkar útskornar myndir í mörgum litlum skápum. Í miðjunni er stór krossfestingarmynd þar sem margt er að gerast í senn og margar persónur koma við sögu. Næst krossfestingarmyndinni eru fjórar konur eins og rammi kringum aðalmyndina. Konurnar fjórar eru helstu kvendýrlingar kirkjunnar, kallaðar á latínu virgines capitales og þekkjast þær á einkennum sínum. Efstar eru Katarína frá Alexandríu vinstra megin en Dórótea hægra megin, neðar eru Margrét til vinstri og Barbara til hægri. Á vængjunum eru svo postularnir tólf og þá má einnig þekkja af sígildum einkennum. Í litlu skápunum efst eru litlar myndir, hægra megin gefur að líta dýrlinginn Sebastían og einnig skrýddan biskup en vinstra megin sjáum við heilagan Georg að vega drekann, þar er einnig heilagur Antóníus af Þebu.

Þessi mikla vængjatafla var sjaldnast opin í kaþólskri tíð. Heimildir eru til um það erlendis frá að slíkar töflur hafi aðeins verið opnar á hátíðum og jafnvel aðeins sýnilegar prestunum sem voru innan kórskila (þannig var það í Bergen). Óvíst er hvort þannig hafi verið háttað á Hólum.

Þegar bríkinni er lokað koma í ljós tvö stór málverk. Hægra megin gefur að líta þjáningarfullan píslardauða heilags Sebastíans en vinstra megin er Kristur upprisinn og María Magdalena. Kristur er klæddur grábrúnum munkskufli eins og fransiskanamunkur, með sár á höndum og fótum.

Til þess að setja sig inn í aðstæður eins og þær voru þegar taflan kom í kirkjuna um aldamótin 1500 er rétt að hafa í huga að kirkjan, sem þá var á Hólum, var helmingi lengri en sú sem þar er nú. Þá var hún krosskirkja og þar að auki talsvert hærri. Sú kirkja var reist af Pétri Nikulássyni biskupi (1391­1419); hún fauk árið 1624 og brotnaði í spón.

Það var ekki af tæknilegum ástæðum sem töflurnar voru opnar við sum tækifæri en annars lokaðar. Það var af guðfræðilegum ástæðum. Þegar taflan var opnuð þá opnaði kirkjan glugga inn í annan heim! Taflan var því ekki "mynd" í nútímaskilningi orðsins. Hún var hluti af hinni heilögu messu. Allt frá því á fjórðu öld var messan í kirkjunni túlkuð sem þátttaka í þeirri messu sem fram fer óaflátanlega á himni þar sem dýrlingar og aðrir hólpnir menn lofa Guð. Taflan var eins konar gluggi inn í þennan dýrðarinnar heim. Þegar altarisskápurinn var opnaður þá opnaðist gluggi inn í þann heim sem kirkjan ein gat opnað: heim hins góða, fagra og fullkomna, heim Guðs með öðrum orðum.

Það þarf ímyndunarafl fyrir tuttugustu aldar fólk til þess að gera sér í hugarlund kynngimagn altaristöflunnar á Hólum á sínum tíma. Í kirkjuskipinu sat söfnuðurinn en við altarið opnaðist annar heimur. Sá heimur var aðeins sýnilegur í óljósri mynd og kringum þá mynd voru prestarnir og gættu hennar. Þessu má jafnvel líkja við sjónvarpið nú á tímum þar sem lítill kassi gerir fólki kleift að horfa inn í annan heim! Að baki er hugmynd um hlutverk myndarinnar og það hlutverk er ekki aðeins að vera eftirmynd veruleikans heldur að "gera hið ósýnilega sýnilegt" svo notuð séu orð listamannsins Pauls Klee um hlutverk listarinnar.

Sá heimur, sem birtist aftan á vængjunum þegar töflunni er lokað, er heimur syndarinnar, heimur baráttu við hið illa, heimur mótlætis og dauða þar sem Sebastían og Frans og aðrir dýrlingarnir feta í fótspor hins krossfesta, gefast ekki upp þótt á móti blási og veita öðrum kjark til að halda áfram baráttunni með fordæmi sínu.

Þrískiptar myndir eins og Hólabríkin voru algengar í Norður-Evrópu á seinni hluta fjórtándu aldar og á fimmtándu öld og raunar fram á þá sextándu. Þær þróuðust út úr helgistyttum af Maríu mey og öðrum dýrlingum kirkjunnar. Á þessum tímum var trú manna á helgigripi býsna sterk, helgigripi svo sem flísar úr krossi Krists eða eitthvað úr fórum dýrlinga kirkjunnar. Helgistyttunum fylgdu iðulega slíkir helgigripir. Af þeim sökum urðu helgigripirnir sem voru ofan við altari eða aftan við það (meðan messa stóð) iðulega tilefni til eins konar skurðgoðadýrkunar sem er auðvitað í andstöðu við biblíulega trú. Þessi dýrkun náði sér verulega á strik þegar stóru altarisbríkurnar komu til sögunnar. Kirkjuleg yfirvöld reyndu að stemma stigu við þessari þróun með ýmsum aðgerðum löngu áður en Lúther kom fram á sjónvarsviðið.

Það er svo önnur saga að þrískipt vængjatöfluformið er allvel þekkt í nútímamyndlist (dæmi: Francis Bacon, Max Beckmann, Yves Klein, Otto Dix, Piet Mondrian, Emil Nolde o.fl.). Hvað sem myndefninu líður hverju sinni þá felur þetta form óneitanlega í sér ákveðna skírskotun til hefðarinnar; þar er skírskotun til hulinnar návistar Guðs í veröld mannsins. Skírskotun til þess að sá heimur sem maðurinn lifir í er lokaður heimur, þar sem aðgangur er bannaður að svörum við dýpstu spurningum um lífið. Bara að það væri hægt að opna gluggann og gera hið ósýnilega sýnilegt!

Höfundur er sóknarprestur á Reynivöllum í Kjós.

Altarisbríkin í Hóladómkirkju.

Sjá skýringarteikningu á næstu síðu.

Ljósm.:Guðmundur Ingólfsson, Ímynd.

2)

Skýringarmynd við altarisbríkina. Talið frá vinstri: (í nyrðri væng) 1) Heilagur Georg að drepa drekann. 2) Antoníus ábóti frá Egyptalandi. 3) Pétur postuli. 4) Jakob eldri postuli. 5) Andrés postuli. 6) Tómas postuli. 7) Mattheus postuli. 8) Filipus postuli. Miðbrík: 9) Katrín frá Alexandríu. 10) Margrét frá Antíokkíu. 11) Dóróthea frá Kappadókíu. 12) Heilög Barbara. 13) Ræninginn sem iðraðist. 14) Kristur á krossinum. 15) Ræninginn sem ekki iðraðist. 16, 17 og 18) Englar sem halda á bikurum. 19) Kona með barn. 20) Björn með barn. 21 og 22) Riddarar í marglitum klæðum. 23 og 24) Ríðandi hermenn. 25) María Magdalena. 26) María mey. 27) Jóhannes postuli. 28) Kona í gylltum klæðum. 29) Önnur kona. Kristján Eldjárn taldi þær vera konurnar frá Galíleu. 30) Menn í herklæðum. 31) Maður sem krýpur með reitt bjúgsverð. 32) Liggjandi maður. Syðri vængur: 33) Ágústínus biskup. 34) Sebastían píslarvottur. 35) Jóhannes postuli. 36) Bartólómeus postuli. 37) Matthías postuli. 38) Júdal Taddeus. 39) Jakob yngri. 40) Símon með bók.

Teikning: Kristín Huld Sigurðardóttir.

Píslarvætti heilags Sebastians á bakhlið Hólabríkur. Ljósm. Lesbók/GS.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.