Fyrst og fremst er Hárið í uppsetningu Silfurtunglsins frábær skemmtun með hæfileikaríku og orkumiklu listafólki sem smitar frá sér söng- og leikgleði, segja greinarhöfundar.
Fyrst og fremst er Hárið í uppsetningu Silfurtunglsins frábær skemmtun með hæfileikaríku og orkumiklu listafólki sem smitar frá sér söng- og leikgleði, segja greinarhöfundar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir Hárið er í Hörpu. Söngleikurinn um frelsið og friðinn er sá fyrsti sem settur er upp í tónlistarhúsinu nýja.

Árni Svanur Daníelsson

og Kristín Þórunn Tómasdóttir

Hárið er í Hörpu. Söngleikurinn um frelsið og friðinn er sá fyrsti sem settur er upp í tónlistarhúsinu nýja. Það er viðeigandi að þetta fallega hús, sem minnir okkur bæði á hrun og uppbyggingu, sé nú vettvangur þeirrar samfélagsrýni og brýningar sem í söngleiknum felst.

Fyrst og fremst er Hárið í uppsetningu Silfurtunglsins frábær skemmtun með hæfileikaríku og orkumiklu listafólki sem smitar frá sér söng- og leikgleði. Hárið er líka prédikun gegn stríði og sem slíkur er söngleikurinn bæði tímabundinn og tímalaus. Hann er tímabundinn af því að Víetnamstríðinu er lokið og enginn dregur ranglæti þess lengur í efa. Hann er tímalaus af því að enn er farið í stríð út af annarlegum hagsmunum.

Hárið leiðir okkur í gegnum ástir og átök, og uppgjör við hefðir og stofnanir samfélagsins. Kynlíf og eiturlyf eru fyrirferðarmikil í söngleiknum og við fylgjumst einnig með umbrotum pólitískrar og andlegrar hugmyndafræði og tilgangsleit unga fólksins.

Lokaatriði söngleiksins er útför. Vinurinn Berger, sem fór í stríðið í stað Claude, er kominn heim. Líkkista stendur á sviðinu miðju, sveipuð bandaríska fánanum og minnir á sorgina í vinahópnum og grunngildi samfélagsins. Leikararnir ungu syngja alvarlegir í bragði:

Við erum öll í feluleik

föst í okkar lygavef

sem að upphefur eymdina.

Atriðinu lýkur svo á sunginni bæn sem dregur saman boðskap verksins og brýnir áhorfandann:

Lifi ljósið, lifi ljósið hér og lýsi þér.

Hárið er prédikun um manneskjuna, ranglæti og frelsi. Prédikun gegn reglum sem þjóna sjálfum sér, en ekki fólki, þjóna stríði en ekki friði, þjóna ranglæti en ekki réttlæti. Okkur er hollt að heyra slíka prédikun í þessu tónlistarhúsi.

Ljósbænin dregur líka fram einkenni náungasamfélagsins: Við horfum til náungans, biðjum fyrir og þjónum honum. Það er uppbyggingaráskorunin okkar á Íslandi eftir hrunið.

Höfundar eru prestar.