Ásgeir Ásgeirsson var forsætisráðherra í miðri heimskreppu, 1932-1934. Gunnar M. Magnúss skýrir frá því í minningum sínum, að Ásgeir hafi sagt á kosningafundum í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1934: „Kreppan er eins og vindurinn.

Ásgeir Ásgeirsson var forsætisráðherra í miðri heimskreppu, 1932-1934. Gunnar M. Magnúss skýrir frá því í minningum sínum, að Ásgeir hafi sagt á kosningafundum í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1934: „Kreppan er eins og vindurinn. Enginn veit, hvaðan hún kemur eða hvert hún fer.“

Þetta er ættað úr Jóhannesarguðspjalli, enda var Ásgeir guðfræðingur að mennt. Þar segir (3, 8): „Vindurinn blæs, þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer.“

Ásgeiri samdi illa við flokksbróður sinn, Jónas Jónsson frá Hriflu, og er óhætt að segja, að Jónas hafi hrakið hann úr Framsóknarflokknum. Lá Jónasi jafnan illa orð til Ásgeirs. Frægt er, þegar bóndi að vestan hitti fyrst Jónas og síðan Ásgeir í Reykjavíkurför. Þegar Jónas barst í tal við Ásgeir, var hann sanngjarn í máli eins og hans var vandi. Bóndi mælti í undrunartón: „Það er fallegt af þér að tala svona vingjarnlega um Jónas frá Hriflu, þar sem hann talar svo illa um þig.“ Ásgeir svaraði alúðlega: „Ef til vill skjátlast okkur báðum.“

Þessi saga er ekki verri fyrir það, að hún er gömul. Feneyski kvennamaðurinn Giacomo Casanova, sem uppi var 1725-1798, sagði í endurminningum sínum, Histoire de ma vie (3. bindi, 21. kafla), frá því, er hann hitti franska háðfuglinn Voltaire í ágúst 1760. Hafði hann orð á því við Voltaire, að því miður talaði svissneski náttúrufræðingurinn Albrecht von Haller ekki eins vel um Voltaire og Voltaire um von Haller. „Haha, það getur verið, að okkur hafi báðum skjátlast,“ svaraði Voltaire brosandi.

Svipað segir af þýska rithöfundinum Tómasi Mann. Útgefandi í München hafnaði handriti eftir hann. Mann sagði: „Ég hélt þér væruð listvinur.“ Útgefandinn svaraði: „Ég fæ ekki séð, að þér eða handritið yðar eigi neitt skylt við list.“ Þá mælti Mann: „Þá biðst ég afsökunar. Okkur skjátlast þá sýnilega báðum.“

Vestur-íslenska skáldið Káinn orti í sama anda:

Einlægt þú talar illa um mig,

aftur ég tala vel um þig.

En það besta af öllu er,

að enginn trúir þér – né mér.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar.

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is