Haustið 1977 sýndi Þjóðleikhúsið leikritið „Stalín er ekki hér“ eftir Véstein Lúðvíksson. Sögusviðið var heimili Þórðar járnsmiðs árið 1957.

Haustið 1977 sýndi Þjóðleikhúsið leikritið „Stalín er ekki hér“ eftir Véstein Lúðvíksson. Sögusviðið var heimili Þórðar járnsmiðs árið 1957. Hann er í Sósíalistaflokknum og vill ekki viðurkenna, að sósíalisminn hafi orðið fyrir áföllum við afhjúpun Stalíns og innrásina í Ungverjaland. En kona hans heimtar, þegar þau flytjast í nýja íbúð, að hann selji rit sín um marxisma: „Við verðum að fara að gera hreint.“

Sömu dagana og leikritið var fært upp í Þjóðleikhúsinu, hélt Alþýðubandalagið landsfund, og sögðu gárungarnir, að sama leikritið væri leikið samtímis á tveimur stöðum í Reykjavík. Alþýðubandalagið var þá að sverja af sér forvera sína, Sósíalistaflokkinn og kommúnistaflokkinn, þótt enn laumuðust einstakir forystumenn flokksins öðru hverju til Ráðstjórnarríkjanna í boði Kremlverja.

Forystumenn Sósíalistaflokksins voru ekki einir um stalínisma. Ræstingakona Þjóðviljans , Elín Ólafsdóttir, hafði þetta viðkvæði: „Þá minnist ég Bjarna frá Vogi og Josífs Stalíns, er ég heyri góðs manns getið.“ Kunningi minn sagði við annan sannfærðan stalínista, Bóas Emilsson, trésmið á Selfossi, að hann gæti nú ekki neitað því, að Stalín hefði látið drepa milljónir manna á valdatíma sínum. Bóas var snöggur til svars: „Ja, hvað drepur Guð marga á hverjum degi?“

Jens Figved, sem var í þjálfunarbúðum fyrir byltingarmenn í Moskvu, var líklega eini Íslendingurinn, sem talaði við Stalín. Var það símleiðis, og leyfði Stalín þýðingu á einu verki sínu, væntanlega „Nokkur atriði úr sögu bolsévismans“, sem birst hafði haustið 1931 í Rússlandi (en hér í Bolsjevikkanum 1934).

Nokkrir Íslendingar sáu Stalín þó álengdar, oftast á hersýningum á Rauða torginu. Halldór Kiljan Laxness virti hann fyrir sér á sviði í Bolshoj-leikhúsinu 11. desember 1937. Í Gerska æfintýrinu skrifaði Laxness síðan, að Stalín væri í hærra meðallagi á vöxt, grannur og vel limaður. Þetta var fráleitt. Stalín var mjög stuttur, nánast dvergur, þrekinn og bólugrafinn. Raunar breytti Laxness þessu í annarri útgáfu 1983, og var Stalín þá „í meðallagi á vöxt“. Hér gerði aldrei þessu vant fjarlægðin manninn minni.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is