Sviðsljós
Sigrún Rósa Björnsdóttir
sigrunrosa@mbl.is
Gengið var í gær frá kaupsamningi á milli Huang Nobu, stjórnarformanns kínverska fjárfestingarfyrirtækisins Zhongkun Group, og eigenda jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum. Samningurinn er þó háður því að leyfi bæði kínverskra og íslenskra yfirvalda fáist til kaupanna.
Vill tengja saman þjóðgarða
Huang, sem hefur verið að fjárfesta í umhverfistengdri ferðaþjónustu í m.a. Kína og Bandaríkjunum, sagði í samtali við Morgunblaðið að hann gerði ráð fyrir að byggja þar fimm stjarna hótel og átján holna golfvöll auk aðstöðu fyrir hestafólk. Hann reiknar með að heildarfjárfestingin á svæðinu verði á bilinu 10-20 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar taki um þrjú ár. Huang lagði mikla áherslu á náttúruvernd og sagðist gera sér vonir um að geta tengt saman Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum í samstarfi við stjórnvöld en mikilvægt væri að vera í góðu samstarfi við bæði þau og heimamenn.Gangi verkefnið á Grímsstöðum eftir sér Huang fyrir sér að byggja fimm stjarna hótel í Reykjavík. Þar yrðu jafnframt höfuðstöðvar fyrirtækisins sem stofnað verður utan um framkvæmdirnar.
Háð leyfisveitingum
Huang segir að um sex mánuði geti tekið að fá leyfi kínverskra yfirvalda fyrir fjárfestingunni en ferðaþjónusta sé ein þeirra greina sem hafi helst fengist leyfi til að fjárfesta í erlendis.Innan Íslands er fjárfesting erlendra aðila, utan Evrópska efnahagssvæðisins, háð takmörkunum og segir Huang að verið sé að vinna að þeim málum núna.
Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann sagðist fagna erlendri fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu. Skoða þyrfti hvert verkefni vandlega í nánu samráði aðila. Sagði Össur að íslensk stjórnvöld væru svo sannarlega reiðubúin til þess. Þá kom fram í tilkynningunni að Huang væri reiðubúinn að afsala sér vatnsréttindum í Jökulsá á Fjöllum.
Huang segist hafa fundað með fulltrúum sveitar- og bæjarstjórna á Norðurlandi í vikunni og alls staðar hafa fengið jákvæð viðbrögð.
Viljayfirlýsing undirrituð
Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir að sveitarstjórnin hafi á mánudag skrifað undir viljayfirlýsingu meðHuang Nobu þess efnis að aðilarnir myndu vinna saman að uppbyggingu ferðaþjónustu í Norðurþingi en hún fundaði ásamt sveitarstjórn Langanesbyggðar með Huang.
Bergur segir fyrirhugað verkefni falla vel að stefnumótun þeirra á Norðausturlandi.
Erlend fjárfesting
» Íslenskt lagaumhverfi er flókið þegar kemur að fjárfestingu erlendra aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins.
» Þar er ekki nóg að líta til laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri heldur þarf að skoða nokkra lagabálka saman.
» Þá geta mörg ráðuneyti þurft að koma að málum þegar farið er í umfangsmiklar leyfisskyldar framkvæmdir.
GRÍMSSTAÐIR Á FJÖLLUM