Þjórsá Viðey er í Þjórsá framan við bæinn Minna-Núp. Gróður þar sker sig mjög úr manngerðu landslagi.
Þjórsá Viðey er í Þjórsá framan við bæinn Minna-Núp. Gróður þar sker sig mjög úr manngerðu landslagi. — Ljósmynd/www.mats.is
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Verði af gerð Hvammsvirkjunar í Þjórsá þarf að reisa fjár- og mannhelda girðingu umhverfis Viðey í Þjórsá til að vernda lífríki eyjarinnar fyrir mönnum og dýrum. Umhverfisráðherra hefur friðlýst Viðey, að ósk landeigenda.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Verði af gerð Hvammsvirkjunar í Þjórsá þarf að reisa fjár- og mannhelda girðingu umhverfis Viðey í Þjórsá til að vernda lífríki eyjarinnar fyrir mönnum og dýrum. Umhverfisráðherra hefur friðlýst Viðey, að ósk landeigenda.

„Okkur fannst það tilhlýðilegt, í ljósi fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda,“ segir Katrín Briem á Stóra-Núpi, einn eigenda Viðeyjar sem óskuðu eftir friðlýsingu eyjar0innar. Hún tekur fram að hún voni að ekki verði af virkjun.

Í Viðey, sem í daglegu tali heimamanna hefur verið kölluð Minnanúpshólmi, hefur gróður þróast sjálfstætt, að mestu án áhrifa manna og sauðfjár síðustu áratugina. Þar er lítt snortinn og gróskumikill birkiskógur sem ekki hefur verið nytjaður um árabil. Sker eyjan sig mjög úr landinu á árbökkunum beggja vegna sem nýtt er til ræktunar og beitar.

Náttúruleg vernd

Straumþung Þjórsá hefur séð um að einangra eyjuna. Hún hefur ekki verið nýtt eftir miðja síðustu öld að sögn Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur sem tók lífríki eyjarinnar fyrir í lokaverkefni í náttúru- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þó eru heimildir um að þurft hafi að sækja fé út í hana 1973 og 1999. Katrín Briem, sem á Viðey með systrum sínum, hefur sjálf aldrei komið út í eyna.

Hvammsvirkjun er ein þriggja virkjana sem Landsvirkjun hyggst gera í Neðri-Þjórsá. Áin verður stífluð skammt fyrir ofan Viðey, Hagalón myndað og vatnið leitt í stöðvarhús neðan eyjarinnar. Það þýðir að rennsli árinnar verður stýrt um eyna og mun minnka mikið og verða lítið á ákveðnum tímum árs.

Skepnur geta þá auðveldlega komist út í eyna og líklegt er að fólk hafi áhugi á að litast þar um.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda náttúrulegan og lítt snortinn birkiskóg ásamt því lífríki sem honum fylgir. Einnig að vernda erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs.

Eigendur jarðarinnar hafa í nokkur ár óskað eftir friðlýsingu eyjarinnar og Anna Sigríður Valdimarsdóttir hvatti til þess í ritgerð sinni. Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti friðlýsinguna sem Svandís Svavarsdóttir síðan undirritaði í fyrradag.

Með friðlýsingunni tekur Umhverfisstofnun að sér að girða friðlandið, verði af virkjun, til að vernda lífríkið fyrir mönnum og dýrum. Þarf vafalaust töluvert mannvirki til að loka eynni en ekki liggur enn fyrir hvernig það verður.

SJÖTÍU GRÓÐURTEGUNDIR

Sjaldgæfar plöntur

Gróskumikill birkiskógur er í Viðey. Alls fundust yfir 70 háplöntur þar við rannsókn Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur og sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar. Þar af eru tvær tegundur sem eru sjaldgæfar hér á landi, grænlilja og kjarrhveiti.

Grænliljan finnst að sögn Önnu Sigríðar aðallega á Vestfjörðum og í Suður-Þingeyjarsýslu og kjarrhveitið í innsveitum Suður-Þingeyjarsýslu.

Minjar í eynni og heimildir sem Anna Sigríður hefur aflað sér sýna að hún hefur verið nýtt fyrr á árum, meðal annars til vetrarbeitar, viðarnytja og eggjatöku. Þar sjást tóttir húss og stígar hafa verið ruddir.