25. maí 1994 | Minningargreinar | 223 orð

FINNBJÖRN ÞORVALDSSON

FINNBJÖRN ÞORVALDSSON

FINNBJÖRN Þorvaldsson, einn af ástsælustu afreksmönnum Íslendinga í íþróttum á þesari öld, er sjötugur í dag. Finnbjörn er vestfirskur að uppruna, en hefur alið mestallan sinn aldur á höfuðborgarsvæðinu, í Garðabæ lengst af, en síðustu árin í Reykjavík.

Hæfileikar Finnbjörns á sviði íþróttanna komu fljótt í ljós. Hann var vel liðtækur í mörgum greinum. Það má t.d. nefna handknattleik, en hann lék með Íslandsmeistaraliði ÍR 1945. Þá vann hann til afreka í körfuknattleik og fimleikum.

Finnbjörn er þó frægastur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum, sérstaklega í spretthlaupum, þar sem hann vann fjölmarga Íslandsmeistaratitla. Hann sigraði oft í landskeppni á íþróttaferli sínum og Norðurlandameistari varð hann nokkrum sinnum. Finnbjörn komst í úrslit í 100 m hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Ósló 1946 og tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948, þar sem hann var fánaberi. Íslandsmet, sem hann setti, voru fjölmörg, skiptu tugum.

Prúðmennska og drengskapur í keppni voru einkennandi í fari Finnbjarnar. Hann var fyrstu til að óska sigurvegara til hamingju og aldrei urðu keppinautar hans varir við hroka.

Finnbjörn er nú sestur í helgan stein, en hann var starfsmaður Loftleiða og síðan Flugleiða í áratugi.

Undirritaður sendir Finnbirni og fjölskyldu hans hugheilar heillaóskir á þessum tímamótum í ævi hans og óskar honum alls góðs á ævikvöldi. Afmælisbarnið dvelur erlendis um þessar mundir.

Örn Eiðsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.