Spakur Guthrie Govan lætur sólina skína á sig - og gítarinn sinn.
Spakur Guthrie Govan lætur sólina skína á sig - og gítarinn sinn.
Ferill Govans er margþættur en breska blaðið Guitarist var með hann á forsíðunni í júlí síðastliðnum.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Það var í janúar í fyrra sem gítarséníið Clive Carroll heimsótti landann, en Tom nokkur Matthews flutti hann þá inn en hann var á þeim tíma búsettur hér á landi. Matthews flytur nú öðru sinni inn gítarleikara, rafgítarséníið Guthrie Govan, og mun hann halda tónleika á Rósenberg á föstudaginn og laugardaginn, auk þess að halda kennslustund í gítarleik á laugardeginum á sama stað kl. 15.00.

Bara fötin

Tengsl Matthews við landið eru athyglisverð en hann kom hingað til lands árið 2008 og átti þá bara fötin sem hann stóð í. Nokkru fyrr hafði hann sótt tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður heim og kolféll hann þá fyrir landi, þjóð – en fyrst og síðast tónlistinni. Hann ákvað að flytjast hingað og læra á gítar, sem hann kunni ekkert á fyrir þessa tímamótaheimsókn. Í viðtali við blað þetta á þeim tíma þegar téður Carroll kom til landsins lét Matthews þá ósk í ljós að hann vonaðist til að fá að spila á Aldrei fór ég suður einn daginn. Fór svo að honum varð að ósk sinni í kjölfar viðtalsins!

Margþættur ferill

Matthews er fluttur aftur út til Bretlands þar sem hann leggur stund á gítarnám en er staddur hér á landi til að hafa yfirumsjón með tónleikunum.

„Ég fékk Carroll yfir á sínum tíma þar sem hann er einfaldlega uppáhaldsgítarleikarinn minn. Carroll er mikill virtúós á kassagítar en Guthrie Govan er hins vegar uppáhaldsrafgítarleikarinn minn. Svo vill til að þeir Govan og Carroll þekkjast. Þeir fæddust í sama bænum og það greiddi götu mína þegar ég ákvað að reyna að koma honum hingað.“

Ferill Govans er margþættur en breska blaðið Guitarist var með hann á forsíðunni í júlí síðastliðnum. Govan spilar ýmsa stíla; rokk, bræðing og hefur einnig starfað með raftónlistarmönnum. Hann er þá eftirsóttur leigugítarleikari eða sessionspilari og gítar- og bassapartar eftir hann hafa verið notaðir í lögum eftir Sugababes, Cee Lo Green og Dizzee Rascal og hann hefur starfað með gítargúrúum á borð við Lee Ritenour, Steve Lukather og George Benson.