Tuttugasta þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna var sett í Moskvu 14. febrúar 1956. Kristinn E. Andrésson, framkvæmdastjóri Máls og menningar, var annar fulltrúi Sósíalistaflokksins á þinginu.

Tuttugasta þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna var sett í Moskvu 14. febrúar 1956. Kristinn E. Andrésson, framkvæmdastjóri Máls og menningar, var annar fulltrúi Sósíalistaflokksins á þinginu. Fyrstu dagana fluttu nokkrir foringjar kommúnista ræður, sem skilja mátti sem ádeilur á Stalín, hinn gamla einræðisherra, sem látist hafði þremur árum áður.

Þetta vakti mikla athygli á Vesturlöndum. Vikublaðið Frjáls þjóð , sem deilt hafði árum saman á sósíalista fyrir þjónkun við Kremlverja, gaf sigri hrósandi út sérstakt aukablað 20. febrúar um þessar ádeilur á Stalín. Íslenskir sósíalistar ókyrrðust. Eiginkona Kristins skrifaði honum 24. febrúar: „Annars er mér sama, hvað þeir segja í Moskvu um Stalín minn, hann verður alltaf stórmenni í mínum augum, og ég held, að hann hafi mátt vera dálítið einráður.“ Rakst ég á þetta fróðlega bréf í skjalasafni Kristins á Þjóðarbókhlöðunni.

Lúðvík Jósepsson birti sama dag, 24. febrúar 1956, langa grein í Þjóðviljanum undir heitinu „Flóttinn til Volgu“, þar sem hann varaði íslenska sósíalista við að taka mark á æsifréttum vestrænna blaða af flokksþinginu í Moskvu. Þær breyttu engu um það, að sósíalisminn hlyti að sigra í heiminum.

Lúðvík gat ekki verið óheppnari í tímasetningu. Að kvöldi sama dags og hann birti grein sína, flutti Níkíta Khrústsjov, aðalritari kommúnistaflokksins, leynilega ræðu yfir innlendum þingfulltrúum, þar sem hann gerði upp við Stalín. Hinn látni einræðisherra hefði verið valdasjúkur, ofsótt flokksbræður sína og logið sökum upp á herforingja Rauða hersins. Enginn hefði verið óhultur fyrir honum.

Þótt ræðan væri leynileg, leyfðu Kremlverjar vestrænum fréttariturum að birta hana í erlendum blöðum. Þeir tóku hins vegar ekkert tillit til hinna íslensku fylgismanna sinna, sem stóðu eins og þvörur. Kristinn E. Andrésson frétti fyrst af ræðunni, þegar hann kom við í Kaupmannahöfn á heimleið og las dönsku dagblöðin. Og líklega hefur Lúðvík Jósepssyni ekki verið skemmt, þegar hann heyrði um ræðuna og minntist greinar sinnar sama dag um „Flóttann til Volgu“.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is