Ráðgáta Ólafur Már segri margt undarlegt við þau gjöld sem leggjast á raftæki. „Ef brauðristin ristar brauðið lóðrétt bætist ekki við tollur, en ef brauðið er ristað flatt eru gjöldin 32%,“ nefnir hann sem dæmi.
Ráðgáta Ólafur Már segri margt undarlegt við þau gjöld sem leggjast á raftæki. „Ef brauðristin ristar brauðið lóðrétt bætist ekki við tollur, en ef brauðið er ristað flatt eru gjöldin 32%,“ nefnir hann sem dæmi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Raftækjaverslunin MAX hóf innreið sína á raftækjamarkaðinn árið 2006. Þessi síðustu ár hafa verið heldur betur stormasöm, mikil átök á markaðinum og töluverð hreinsun átt sér stað.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Raftækjaverslunin MAX hóf innreið sína á raftækjamarkaðinn árið 2006. Þessi síðustu ár hafa verið heldur betur stormasöm, mikil átök á markaðinum og töluverð hreinsun átt sér stað.

Ári eftir að hafa opnað verslun í Kauptúni í Garðabæ opnaði MAX aðra verslun í Holtagörðum, sem nú er lokuð. Ólafur Már Hreinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir lokunina hins vegar ekki hafa verið vegna slæms gengis. „Vandinn við Holtagarða var að staðsetningin skilaði ekki neinni traffík í búðina. Annað er uppi á teningnum í Kauptúni, staðsetningin mjög góð og vinsælar verslanir í kring hjálpa til við að laða að fleiri gesti.“

Að sögn Ólafs eru engin plön um að stækka fyrirtækið á ný. Umhverfið hafi breyst og hegðun neytenda í takt við það, svo ekki er þörf á að fylla í það gat sem samkeppnisaðilar skildu eftir sig þegar þeir þurftu að loka verslunum hér og þar um höfuðborgina. „Í dag er höfuðborgarsvæðið allt eitt markaðssvæði, og ekki eins og var hér áður að fólk gengi bara beint inn í næstu búð til að kaupa það sem vantaði. Í dag skoða neytendur alla valkosti og bregða sér á milli bæjarhluta til að gera samanburð. Við ætlum því ekki að dreifa kröftunum heldur einblína á að gera enn betur hér þar sem við erum í dag.“

Dýrustu vörurnar detta út

Ólafur segir MAX hafa það að markmiði að bjóða góða verðbreidd í raftækjum, allt frá ódýrustu merkjum upp í dýru hágæðavöruna. Fyrir vikið hafi fyrirtækið getað notið góðs af aukinni sækni neytenda í ódýrari vörur eftir bankahrun. „Dýrustu vörurnar hafa að miklu leyti dottið út, og sama gildir með ýmsar skemmtilegar sérvörur eins og t.d. bjórdælur. Mikil hreyfing er hins vegar í flatskjám og ferðatölvum, og ýmsum öðrum tækjum sem alltaf er ákveðin þörf fyrir að endurnýja.“

Sum lítil rafmagnstæki, eins og t.d. myndavélar, hafa líka tekið ágætan kipp í sölu. Skrifar Ólafur það m.a. á að landsmenn ferðast minna til útlanda og eru því ekki að kaupa þessi sömu tæki erlendis.

Þegar kemur að því að laða að fleiri viðskiptavini segir Ólafur að það hafi gefist MAX vel að gefa út auglýsingabæklinga með góðum tilboðum. „Tilboðin hafa greinileg áhrif og það sem við gætum líka að er að eiga nóg eintök af þeim tækjum sem við bjóðum á tilboðsverði. Viðskiptavinurinn getur því litið inn hjá okkur viku eftir að bæklingnum er dreift í hús án þess að eiga á hættu að grípa í tómt.“

Dularfull opinber gjöld

Eitt af þeim vandamálum sem smáverslun með raftæki stendur frammi fyrir hér á landi er flókið tollakerfi. Ólafur segir oft á tíðum erfitt að skilja hvaða lögmál búa að baki reglunum. „Nefna má dæmi eins og tölvuskjá með einu tengi, sem ber virðisaukaskatt en engan toll. Ef skjárinn er með tveimur tengjum leggst hins vegar á 32% tollur og vörugjöld. Ef brauðristin ristar brauðið lóðrétt bætist ekki við tollur, en ef brauðið er ristað flatt eru gjöldin 32%,“ segir hann. „Það er eins og þessi opinberu gjöld ráðist af einhverjum geðþótta, og aldrei hef ég heldur orðið var við að yfirvöld leiti út á markaðinn eftir hugmyndum og ábendingum um eðlilegar útfærslur.“

Algengast er að raftæki fyrir heimilið beri bæði 7,5% toll, 25% vörugjöld og svo virðisaukaskatt ofan á það. Ef keyptur er ísskápur fyrir um 100.000 kr. má reikna með að ríflega 40% af kaupverðinu fari til ríkissjóðs.