Vinna Atvinnuleysi í ágúst var 6,7%, 11.294 voru atvinnulausir. Atvinnuleysi eykst jafnan þegar líður á veturinn og nær hámarki upp úr áramótum.
Vinna Atvinnuleysi í ágúst var 6,7%, 11.294 voru atvinnulausir. Atvinnuleysi eykst jafnan þegar líður á veturinn og nær hámarki upp úr áramótum. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Töluvert hefur verið um uppsagnir í byggingariðnaði og þær eru mun fleiri en þær sem hafa komið fram í fjölmiðlum, að sögn Friðriks Á. Ólafssonar hjá Samtökum iðnaðarins, SI.

Baksvið

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Töluvert hefur verið um uppsagnir í byggingariðnaði og þær eru mun fleiri en þær sem hafa komið fram í fjölmiðlum, að sögn Friðriks Á. Ólafssonar hjá Samtökum iðnaðarins, SI. Verkefnaskortur sé svo mikill að rótgróin verktakafyrirtæki séu farin að segja upp lykilstarfsmönnum og þá sé augljóslega fokið í flest skjól.

Friðrik segir að nánast engin verkefni séu á markaðnum og ekkert sé í pípunum. Eina ljósið í myrkrinu sé verkefnið Allir vinna, sem snýst um endurgreiðslu á virðisaukaskatti og tiltekinn skattafrádrátt, en það standi aðeins til áramóta. Vonandi verði það þó framlengt.

Friðrik er forstöðumaður meistaradeildar SI og ræðir reglulega við byggingarverktaka um allt land. Hann segir þungt hljóð í flestum. Ástandið sé orðið svo slæmt að fyrirtæki séu farin að segja upp þeim starfsmönnum sem hafa mestu reynsluna og þekkinguna. „Og þá spyr maður bara: Hvað er eftir? Er eitthvað eftir?“ Ekkert fyrirtæki geti starfað án lykilstarfsmanna. Fari þeir sé fyrirtækið farið.

Friðrik segir að þessir starfsmenn séu með langan uppsagnarfrest enda hafi þeir margir verið í áratugi hjá sama fyrirtækinu. Í nánast öllum tilvikum hafi þeim verið sagt að vonandi sé hægt að draga uppsagnirnar til baka. Þótt fyrirtækin sjái ekkert framundan haldi þau í vonina.

„Það sem við viljum að fari í gang er uppbygging á fyrirtækjum sem munu skila einhverju til þjóðarbúsins þannig að við förum að ná okkur út úr þessu,“ segir hann.

Erfitt sé að spá fyrir um hvort uppsagnir halda áfram í haust og vetur. „Og það er líka spurning hvort það eru einhverjir eftir til að segja upp,“ segir hann.

Ekki bjart á Vestfjörðum

Um ástandið á landsbyggðinni segir Friðrik að það sé mjög misjafnt eftir sveitarfélögum. Hann er nýkominn af fundum á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hann segir að félagsmenn SI telji útlitið ekki bjart á Vestfjörðum en þar hafi menn fundið fyrir því að almenningur hafi tekið við sér þegar átakið Allir vinna hófst. Ástandið á Sauðárkróki sé betra og nokkuð gott á Siglufirði og Akureyri. Á hinn bóginn séu erfiðleikar á Húsavík og í Ólafsfirði.

Áhyggjur af fjárlagafrumvarpi

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að atvinnuleysið innan þeirra raða sé heldur að síga niður. „En maður hefur þó á tilfinningunni að það sé svikalogn,“ segir hann. Undanfarið hafi ekki borist tilkynningar um að félagar í Eflingu hafi misst vinnuna í hópuppsögnum. „Við óttumst að verkefnastaða sé að versna í haust. Það sé ekkert nýtt að koma inn.“ Helst gangi útflutningsfyrirtæki vel, enda krónan veik.

Sigurður segist óttast að í fjárlagafrumvarpinu verði mikið skorið niður og vísar til fregna af því að niðurskurður á Landspítalanum gæti orðið um 600 milljónir. Uppsagnir sem fylgt hafi niðurskurði hafi gjarnan bitnað á láglaunahópum.

Sigurði líst ekki þá umræðu sem fylgt hafi hópuppsögnum. Fyrirtæki geti ekki aðeins horft í eigin rann og sagt upp fólki vegna aðstæðna á markaði. Þreyja þurfi þorrann og á endanum muni landið rísa. Mörg fyrirtæki hafi skilað þokkalegum arði og þá hljóti að vera svigrúm til að veita starfsmönnum skjól á erfiðum tímum.

VINNANDI VEGUR

Þúsund hófu nám í haust

Í haust hófst átakið Nám er vinnandi vegur sem gerði 1.000 manns kleift að stunda nám í eina önn en fá um leið atvinnuleysisbætur. Þeir sem eru í lánshæfu námi hjá LÍN munu um áramótin geta fengið námslán.

Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri vinnumiðlunar- og ráðgjafarsviðs Vinnumálastofnunar, segir að verið sé að skoða möguleika á námstyrkjum eða námslánum fyrir þá sem eru í námi sem ekki er nú lánshæft.

Um 200-300 af hópnum eru í námi sem ekki er lánshæft.

Um 33% fóru í háskólanám, 13% fóru í frumgreinadeildir og fullorðinsfræðslu og 54% fóru í framhaldsskóla, langflestir í iðn- og tækninám.

Ýmis önnur úrræði eru í boði og segir Hrafnhildur að árangurinn sé ásættanlegur. Um 40-50% hafi farið af atvinnuleysisskrá eftir að hafa nýtt sér úrræði.