Friðrik J Arngrímsson
Friðrik J Arngrímsson
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, leggur til aukna veiði á kolmunna á árinu 2012, nánast óbreytta veiði á makríl en 15% minni veiði úr norsk-íslenska síldarstofninum en á þessu ári.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, leggur til aukna veiði á kolmunna á árinu 2012, nánast óbreytta veiði á makríl en 15% minni veiði úr norsk-íslenska síldarstofninum en á þessu ári. Skýrsla um ráðgjöf stofnunarinnar var birt í gær.

Fram kemur á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, að ef áfram verði stuðst við þá samninga, sem gerðir hafi verið um nýtingaráætlun, verði heimilt að veiða 833 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld árið 2012. Það sé um 15% minna en þau 988 þúsund tonn sem leyft var að veiða á þessu ári.

LÍÚ segir að verði sömu nýtingaráætlun fylgt á árinu 2012 og á þessu ári verði leyft að veiða alls 391 þúsund tonn af kolmunna en ráðgjöfin fyrir þetta ár hljóðaði upp á 40.100 tonn. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að vissulega geti aukningin í kolmunna þýtt tekjur upp á einhverja milljarða króna en á móti komi lækkunin í síldinni sem sé mun verðmætari afli. Líklegt sé að þessar tvær breytingar jafnist að miklu leyti út.

Ráðgjöfin fyrir makrílveiðar á næsta ári er nánast eins og á þessu ári. Samkvæmt aflareglu hljóðar hún upp á 586-639 þúsund tonn árið 2012, en var 592-646 þúsund tonn fyrir þetta ár.

Makríllinn gæti gefið 25-30 milljarða

„Verðmætin í makrílnum verða sennilega 25-30 milljarðar. Uppsjávarfiskurinn er orðinn mjög mikilvægur, loðnan er líka á leiðinni upp þannig að það eru ljósir punktar í þessu,“ sagði Friðrik.

Öllum hafi verið ljóst að ráðgjöf ICES í fyrra varðandi kolmunnann sé röng, byggð á ófullkomnum gögnum, nú sé búið að leiðrétta hana.

„En stofninn hefur verið í mikilli niðursveiflu undanfarin ár og er miklu veikari en hann var þegar hann reis hæst. Það varð gríðarleg nýliðun fyrir allmörgum árum en hún hefur hrunið.“

ICES álítur að sennilega séu fleiri en einn veiðistofn af kolmunna í norðaustanverðu Atlantshafi en það hafi þó ekki verið endanlega staðfest.

Fram kemur að sennilega hafi veiðistofn kolmunna verið vanmetinn í fyrra, slæmt veður og skortur á skipum og fleiri atriði hafi valdið því að ekki hafi tekist að kanna ástandið á ákveðnum svæðum en tegundin hrygnir aðallega vestur af Skotlandi og Írlandi.

„Nettóáhrifin af þessu hafa sennilega valdið því að stofninn var vanmetinn,“ segir í skýrslunni. „En matið var samt notað í síðustu ráðgjöf þar sem það var álitið það skásta sem völ væri á.“ Hins vegar hafi gögnin frá því í fyrra alls ekki verið notuð í nýja matinu.

Samið um síld 1999
» Evrópusambandið, Færeyjar, Ísland, Noregur og Rússland komu sér saman um nýtngaráætlun til langs tíma varðandi síldveiðar.
» Þar var m.a. kveðið á um að veiðar skyldu eftir mætti takmarkaðar þannig að hrygningarstofnar færu aldrei undir ákveðið hættumark.