Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Eftir Óla Björn Kárason: "Nú get ég tekið undir með Jóhönnu og raunar gott betur. Frumvarpið er ekki aðeins gallað heldur stórhættulegt fyrir íslenskt efnahagslíf."

Kæri Jón.

Það voru heldur kaldar kveðjur sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sendi þér í Kastljósi Ríkissjónvarpsins síðastliðinn fimmtudag.

„Þetta var gallað frumvarp að mörgu leyti,“ sagði Jóhanna um frumvarp þitt til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Ég efast um að nokkur forsætisráðherra hafi fellt viðlíka dóm á opinberum vettvangi yfir verkum ráðherra í eigin ríkisstjórn. Þó var frumvarpið samþykkt í ríkisstjórn og því á ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Nú get ég tekið undir með Jóhönnu og raunar gott betur. Frumvarpið er ekki aðeins gallað heldur stórhættulegt fyrir íslenskt efnahagslíf. En um það verðum við seint sammála.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsætisráðherra og aðrir samfylkingar senda þér kaldar kveðjur. En þar sem ég veit að þú ert ekki geðlaus maður – ekki frekar en aðrir sem kynnst hafa ferskum vindum Skagafjarðar – vil ég spyrja þig tveggja spurninga:

1. Finnst þér gæta mikils drengskapar í þinn garð þegar forsætisráðherra fellir dóm af því tagi sem gert var í Kastljósi og reynir um leið að víkjast undan ábyrgðinni? Finnst þér drengskapur einkenna framgöngu samstarfsráðherra þinna í öðrum málum, svo sem er varðar Evrópusambandið?

2. Ert þú sammála því að eftir allt sem á undan er gengið eigir þú aðeins tveggja kosta völ: Annaðhvort að sitja áfram í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og láta allt yfir þig ganga, eða að taka hatt þinn og staf og segja skilið við ríkisstjórn?

Ég veit að þú munt svara þessu fljótt og vel, að ekki sé talað um skilmerkilega. Gamlir sveitungar okkar í Skagafirði munu lesa svör þín af athygli, líkt og margir fleiri landsmenn.

Með kærri kveðju.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.