Þyrla Fjármögnun og þyrlukaup eða -leiga eru útboðsskyld.
Þyrla Fjármögnun og þyrlukaup eða -leiga eru útboðsskyld. — Morgunblaðið/Kristinn
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mb.is Öll kaup og leigu hjá ríkinu sem fara yfir tiltekin útboðsmörk verður að bjóða út, að sögn Guðmundar Hannessonar, forstöðumanns ráðgjafarsviðs hjá Ríkiskaupum.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mb.is

Öll kaup og leigu hjá ríkinu sem fara yfir tiltekin útboðsmörk verður að bjóða út, að sögn Guðmundar Hannessonar, forstöðumanns ráðgjafarsviðs hjá Ríkiskaupum. Kaup eða leiga á þyrlu eru yfir efri mörkunum og því þarf að bjóða út bæði fjármögnun og kaup eða leigu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hugsanleg aðkoma lífeyrissjóðanna að fjármögnun þyrlukaupa fyrir Landhelgisgæsluna hefur verið í umræðunni að undanförnu. Fari Landhelgisgæslan fyrir hönd ríkisins út í að kaupa eða leigja þyrlu þarf að fylgja ákveðnu regluverki.

Guðmundur segir að kosti tiltekin vara, sem ríkið hyggst kaupa, meira en 6,2 milljónir króna skuli bjóða kaupin út innanlands og jafnframt skal útboðið vera innan EES fari verðið yfir 16,7 milljónir króna. Í sambandi við leigu skal óskað eftir tilboðum innanlands fari samningsupphæðin yfir 12,4 milljónir króna og innan ESS, sé samningsfjárhæðin meira en 16,7 milljónir króna.

Guðmundur bendir á að eitt sé að kaupa eða leigja þyrlu og annað að fjármagna kaupin. Fjármögnunin falli undir kaup á þjónustu.

Í stuttu máli eru þyrlukaup og fjármögnun þeirra útboðsskyld.