Aðstoð 200 sjálfboðaliðar starfa við söfnun, flokkun og sölu fatnaðar.
Aðstoð 200 sjálfboðaliðar starfa við söfnun, flokkun og sölu fatnaðar.
Aðstoð Rauða kross Íslands vegna hungursneyðarinnar í Sómalíu nær til 50 þúsund manna og nemur nú alls um 56 milljónum króna, með þeim 20 milljónum sem fengist hafa fyrir sölu á fatnaði sem fólk gefur Rauða krossinum til hjálparstarfsins og afhentar...

Aðstoð Rauða kross Íslands vegna hungursneyðarinnar í Sómalíu nær til 50 þúsund manna og nemur nú alls um 56 milljónum króna, með þeim 20 milljónum sem fengist hafa fyrir sölu á fatnaði sem fólk gefur Rauða krossinum til hjálparstarfsins og afhentar voru í gær.

Fyrir þær 20 milljónir króna sem Fatasöfnun Rauða krossins lagði til hjálparstarfsins í gær er búið að kaupa samtals 200 rúmmetra af hjálpargögnum – hreinlætisvörur, plastdúka til skýlisgerðar, teppi, eldunaráhöld og veiðarfæri. Þetta fyllir sjö gáma sem verða sendir um miðjan október frá birgðastöð í Dubai til Sómalíu. Auk þess hefur Rauði krossinn fest kaup á bætiefnaríku hnetusmjöri og öðrum neyðarmatvælum fyrir börn fyrir 36 milljónir króna. Fyrir það fé er hægt að hjúkra 20.000 börnum.

Rauði krossinn hvetur almenning til að leggja söfnuninni lið áfram því gífurleg þörf er á aðstoð. Söfnunarsími Rauða krossins er 904-1500.

Helstu samstarfsaðilar fataverkefnis Rauða krossins eru Sorpa hf. og Eimskip/Flytjandi.