— Morgunblaðið/Eggert
Yfir 7.000 miðar eru nú seldir á Töfraflautuna, hina vinsælu óperu Wolfgangs Amadeus Mozarts, en frumsýning verður 22. október í Eldborg í Hörpu. Fáar óperur hafa náð jafn miklum vinsældum gegnum tíðina og sum lögin er alþekkt í öðru samhengi.

Yfir 7.000 miðar eru nú seldir á Töfraflautuna, hina vinsælu óperu Wolfgangs Amadeus Mozarts, en frumsýning verður 22. október í Eldborg í Hörpu. Fáar óperur hafa náð jafn miklum vinsældum gegnum tíðina og sum lögin er alþekkt í öðru samhengi. Nefna má að lagið við kvæðið Hann Tumi fer á fætur er úr óperunni, einnig lagið við sálminn Í dag er glatt í döprum hjörtum.

Þegar ljósmyndara bar að garði var verið úða kjól Næturdrottningarinnar, sem sungin verður af Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú. Þetta óvenjulega verkefni kallar á óvenjulegar aðstæður – en búningarnir eru úðaðir í herbergi inn af neðri bílakjallara Hörpu, K2, sem er þrjá metra undir sjávarmáli.

Filippía Elísdóttir annast búningana en hún er einn dáðasti búningahöfundur landsins og hefur í fjórgang hlotið Grímuna fyrir búninga sína, nú síðast í vor fyrir Ofviðri Shakespeares í Borgarleikhúsinu. Filippía vinnur nú hörðum höndum að því að skapa ævintýralega umgjörð utan um Töfraflautuna, fyrsta verkefni Íslensku óperunnar í Hörpu, með sérstökum búningum sínum. Fyrir utan að vera sérsaumaðir á hvern einasta þátttakanda í sýningunni, hátt í 60 manns – þar fyrir utan með mörgum búningaskiptum fyrir sum hlutverkin – ætlar Filippía að auki að úða alla búningana sem eru vel yfir 100 talsins.

Ýmsar furðuverur koma við sögu í Töfraflautu Mozarts. Ein aðalpersónanna í verkinu er fuglafangarinn Papagenó sem Ágúst Ólafsson syngur í uppfærslu Íslensku óperunnar núna. Sér til fulltingis í sýningunni hefur Ágúst fuglabrúðu úr smiðju Bernds Ogrodnik sem Magnús Guðmundsson stjórnar.

Bjarni Thor Kristinsson bregður sér í hlutverk hins dularfulla Sarastros á einni sýningu en það verður á aukasýningunni sunnudaginn 20. nóvember kl. 16. Á öllum öðrum sýningum syngur hins vegar Jóhann Smári Sævarsson hlutverkið. Jóhann Smári sló síðast í gegn í uppfærslu Íslensku óperunnar á Rigoletto síðastliðið haust, í hlutverki morðingjans Sparafucile.