Krefjandi Sigurður á æfingu fyrir Hvílíkt snilldarverk er maðurinn!
Krefjandi Sigurður á æfingu fyrir Hvílíkt snilldarverk er maðurinn!
Einleikurinn Hvílíkt snilldarverk er maðurinn! verður frumsýndur annað kvöld kl. 19.30 í Þjóðleikhúskjallaranum. Sigurður Skúlason leikur í verkinu en leikstjóri þess er Benedikt Árnason.

Einleikurinn Hvílíkt snilldarverk er maðurinn! verður frumsýndur annað kvöld kl. 19.30 í Þjóðleikhúskjallaranum. Sigurður Skúlason leikur í verkinu en leikstjóri þess er Benedikt Árnason. Verkið unnu Sigurður og Benedikt upp úr höfundarverki Williams Shakespeares og segja þeir sýninguna þakklætisvott til leiklistarinnar.

Í verkinu bjóða þeir áhorfendum með sér í ferðalag um heim hins mikla leikskálds og draga upp mynd af þeim hlutverkum sem við þurfum að glíma við í „sjö þáttum eigin ævi“, hugtaks sem fengið er frá Shakespeare, úr þekktri ræðu í leikritinu Sem yður þóknast.

Sigurður flutti blaðamanni upphaf ræðunnar í síma í gær: „Öll veröldin er leiksvið, og aðeins leikarar hver karl og kona, þau fara og koma á sínum setta tíma og sérhver breytir oft um gervi og leikur sjö þætti sinnar eigin ævi.“ Sigurður segir gervin svo talin upp, allt frá smábarni til tannlauss og blinds gamalmennis.

„Einleikurinn er bara flæði sem tekur mið af ýmsum eðlisþáttum og kenndum á mannsævinni, allt frá bernsku, hinni saklausu æskuást yfir í fullorðinna manna ást. Fullorðið fólk sem hefur metnað og berst til frama, fer í stríð og drepur hvað annað og svo, þegar fer að halla undan fæti, hvernig menn mæta þessum örlögum sínum að eldast og veikjast og deyja, hvernig menn mæta dauðanum,“ segir Sigurður um einleikinn. Inn í þetta komi heimspekilegar og tilvistarlegar spurningar, gegnum Hamlet og fleiri persónur Shakespeares. Einleikurinn sé byggður upp með eintölum og senum úr verkum skáldsins og hann leiki því margar persónur. „Þetta er mest krefjandi verkefni sem ég hef tekist á við á minni ævi,“ segir Sigurður. Honum þyki skemmtilegt að klífa svo háan tind.