Jón H.B. Snorrason
Jón H.B. Snorrason
Andri Karl andri@mbl.is Lögregla höfuðborgarsvæðisins tekur mjög alvarlega aðfinnslur Hæstaréttar á rannsókn í líkamsárásarmáli sem dæmt var í á fimmtudag.

Andri Karl

andri@mbl.is

Lögregla höfuðborgarsvæðisins tekur mjög alvarlega aðfinnslur Hæstaréttar á rannsókn í líkamsárásarmáli sem dæmt var í á fimmtudag. Rétturinn sýknaði sakborning sem áður hafði verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir árásina og kemur í dómnum fram að ekki sé hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn sé sekur. Fundið var að skýrslutökum hjá lögreglu og meðferð sýna á vettvangi.

„Við höfum sett af stað starfshóp sem skal skoða dóminn og fjalla um þær aðfinnslur sem settar eru fram um rannsókn máls og ákvörðun um ákæru,“ segir Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri. „Hópurinn á að gera tillögur um úrbætur og þær geta verið um setningu sérstakra verklagsreglna eða að skerpa beri verklagsreglur, svo eitthvað sé nefnt.“

Spurður hvort ekki séu skýrar verklagsreglur sem lögreglumönnum beri að fylgja við rannsókn og skýrslutökur segir Jón svo vera. „Það getur verið að annað hvort hafi ekki verið farið að þessum verklagsreglum eða þær séu ekki nægilega skýrar, eða megi vera ítarlegri.“

Sakborningurinn í málinu játaði fyrst árásina við skýrslutöku hjá lögreglu. Spurður hvort það hafi haft áhrif á rannsóknina segir Jón: „Auðvitað getur verið að málið hafi verið talið í upphafi svo ótvírætt upplýst að það hafi ráðið framhaldinu. En það verður að koma í ljós hvort svo er.“

Jón segist ekki telja að rannsókn starfshópsins muni hafa afleiðingar í för með sér fyrir þá lögreglumenn sem komu að málinu, aðrar en þá ef breyta þurfi verklagi. „Ég hef ekki ástæðu til að ætla að þarna hafi menn sýnt af sér vanrækslu eða vanþekkingu sem getur verið tilefni til [áminningar]. Ég held að það sé óeðlilegt að gefa sér það. Það er miklu eðlilegra að skoða þetta með gagnrýnum augum, átta sig á hvað olli þessu og hvort megi koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.“

Hæstiréttur gerði einnig athugasemdir við héraðsdóminn, s.s. að skilað hafi verið sératkvæði, sem sé í andstöðu við lög um meðferð sakamála. Ekki náðist í Helga I. Jónsson dómstjóra hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Málið
» Maðurinn var ákærður fyrir að ráðast á stúlku í Laugardal, slá hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og taka hana hálstaki og þrengja að þar til hún missti meðvitund.
» Hann játaði hjá lögreglu en neitaði sök fyrir dómi.