Þuríður Rúrí Valgeirsdóttir
Þuríður Rúrí Valgeirsdóttir
Frá Þuríði Rúrí Valgeirsdóttur: "Mig langar að minnast St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði með nokkrum orðum, en hinn 1. september síðastliðinn var allri starfsemi að mestu leyti hætt á spítalanum sem hefur þjónað Hafnfirðingum og öðrum landsmönnum frá árinu 1926 eða í 85 ár."

Mig langar að minnast St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði með nokkrum orðum, en hinn 1. september síðastliðinn var allri starfsemi að mestu leyti hætt á spítalanum sem hefur þjónað Hafnfirðingum og öðrum landsmönnum frá árinu 1926 eða í 85 ár. Starfsemi spítalans efldist jafnt og þétt og hann dafnaði og varð að því sem hann var orðinn með dugnaði allra þeirra sem við spítalann hafa unnið.

Það voru margir sem héldu – og ég var lengi ein af þeim – að verið væri að flytja starfsemi St. Jósefsspítala annað. Að deildirnar fengju annan stað með sama fólki innanbúðar en sú er ekki raunin. Auðvitað vinnur þetta frábæra fólk áfram gott starf annars staðar en starfsemi St. Jósefsspítala er ekki að flytja í heild sinni eins og svo margir halda. Hún hættir. Ég er mjög ósátt við að loka eigi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og hryllir við tilhugsuninni um að sjá spítalann, sem stendur á fallegum stað í Hafnarfirði, grotna niður og verða að draugahúsi og verst

er að allt það góða starf sem þar hefur verið unnið fer fyrir bí.

Að lokum vil ég segja að þar sem ég er leikskólakennari á ég eftir að uppfræða litla Hafnfirðinga áfram eins og ég hef gert síðustu fjóra áratugi um fallega bæinn þeirra og þegar við förum efst á Suðurgötuna segi ég þeim að í 85 ár hafi verið spítali í Hafnarfirði en hann sé ekki

til lengur.

Blessuð sé minning St. Jósefsspítala.

ÞURÍÐUR RÚRÍ

VALGEIRSDÓTTIR

leikskólakennari.

Frá Þuríði Rúrí Valgeirsdóttur