Fallslagur Grindvíkingar og Framarar þurfa að berjast fyrir lífi sínu í dag en við ólíkar aðstæður. Grindvíkingar sækja heim Eyjamenn sem vilja tryggja sér Evrópusæti en Framarar taka á móti föllnum Víkingum á Laugardalsvellinum.
Fallslagur Grindvíkingar og Framarar þurfa að berjast fyrir lífi sínu í dag en við ólíkar aðstæður. Grindvíkingar sækja heim Eyjamenn sem vilja tryggja sér Evrópusæti en Framarar taka á móti föllnum Víkingum á Laugardalsvellinum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÓTBOLTI Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Grindvíkingar eru í verstu stöðu liðanna fjögurra sem berjast fyrir tilverurétti sínum í Pepsi-deildinni í knattspyrnu en það ræðst í lokaumferðinni í dag hvaða lið fylgir Víkingum niður í 1. deildina.

FÓTBOLTI

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Grindvíkingar eru í verstu stöðu liðanna fjögurra sem berjast fyrir tilverurétti sínum í Pepsi-deildinni í knattspyrnu en það ræðst í lokaumferðinni í dag hvaða lið fylgir Víkingum niður í 1. deildina.

Grindvíkingar eru með 20 stig en Þór, Keflavík og Fram hafa öll 21 stig.

Grindvíkingar þurfa að gjöra svo vel að leggja Eyjamenn að velli og það á Hásteinsvelli til að halda sæti sínu en ÍBV hefur aðeins tapað einum heimaleik í sumar, gegn Fylki í 2. umferðinni. Grindavík hrósaði sigri á Hásteinsvelli í fyrrasumar, 1:0, og þegar liðin áttust við í Grindavík í fyrri umferðinni höfðu Suðurnesjamennirnir betur.

Flestir sparkspekingar eru á því að Grindvíkingar kveðji Pepsi-deildina á morgun en Orri Freyr Hjaltalín, leikmaður Grindvíkinga, er á öðru máli.

Ennþá í okkar höndum

„Það er bara gott ef flestir eru búnir að dæma okkur niður því við stöndum okkur alltaf best þegar allir eru búnir að afskrifa okkur. Vissulega er staðan erfið en þetta er ennþá í okkar höndum. Það er gott að þurfa ekki að stóla á aðra. Við þurfum bara að vinna okkar leik og þá er málið dautt,“ sagði Orri Freyr við Morgunblaðið í gær.

Leikurinn skiptir Eyjamenn líka máli en þeir eru í baráttu um að verja Evrópusætið sem þeir eru í fyrir umferðina í dag. Fari svo að ÍBV tapi og Stjarnan vinni Breiðablik enda Stjörnumenn í þriðja sætinu og fara í Evrópukeppnina.

Grindavík oft verið í þessari stöðu

„Við spáum ekkert í hvaða þýðingu leikurinn hefur fyrir ÍBV. Eina sem við hugsum um er okkar lið. Menn eru í fótbolta til að spila svona mikilvæga leiki. Því miður erum við í baráttu á vitlausum enda töflunnar. Öll jafnteflin í sumar hafa farið illa með okkur en nú er ekkert sem heitir. Það er bara sigur og ekkert annað og með góðum leik þá eigum við góða möguleika á að taka þrjú stig. Grindavík hefur oft verið í þessari stöðu áður og bjargað sér fyrir horn á síðustu stundu og ég trúi því að svo verði í þetta sinn. Ég trúi ekki öðru en að við fórnum okkur gjörsamlega í þessar 90 mínútur. Við viljum vera áfram í deild þeirra bestu og verðum að sýna það að við eigum það skilið,“ sagði Orri Freyr.

Á mörkunum að báturinn kæmist yfir

Grindvíkingar fóru með ferjunni Baldri til Eyja á fimmtudaginn og segir Orri að ekki væsi um Grindavíkurliðið á eyjunni fögru en liðið æfði í knattspyrnuhöll ÍBV í gær. „Bátsferðin var ekkert sérlega skemmtileg. Það var alveg á mörkunum að báturinn kæmist yfir og menn voru með ólgandi maga þegar í höfnina var komið en við vorum fljótir að jafna okkur,“ sagði Orri.

Orri segir engin meiðsli í herbúðum liðsins og menn séu klárir í erfitt verkefni en liðið mun þó leika án Alexnders Magnússonar sem tekur út leikbann.

FJÖGUR LIÐ BERJAST UM AÐ HALDA SÉR UPPI

Hafa örlögin í sínum höndum

Fjögur lið eru í mikilli fallhættu þegar flautað er til lokaumferðarinnar í dag. Þessir leikir hafa úrslitaáhrif í fallbaráttunni:

Fram – Víkingur R.

ÍBV – Grindavík

Keflavík – Þór

*Keflavík, 21 stig, 25:31.

*Fram, 21 stig, 18:27.

*Þór, 21 stig, 27:39.

*Grindavík, 20 stig, 24:37.

Öll fjögur liðin hafa örlögin í sínum höndum. Sigur hjá hverju fyrir sig tryggir viðkomandi liði áframhaldandi sæti í deildinni.

*Keflavík fellur með tapi gegn Þór, ef Grindavík vinnur og Fram fær stig. Keflavík nægir jafntefli.

*Fram fellur með tapi gegn Víkingi ef Grindavík vinnur og Þór nær stigi í Keflavík. Fram nægir jafntefli.

*Þór fellur með tapi í Keflavík, ef Grindavík vinnur. Líka með tveggja marka tapi ef Grindavík gerir jafntefli. Þór fellur með jafntefli ef Grindavík vinnur og Fram fær stig.

*Grindavík fellur með tapi í Eyjum. Fái Grindavík eitt stig sleppur liðið ef Þór tapar með tveimur mörkum í Keflavík.