Svín Svínaræktin hefur verið í vörn.
Svín Svínaræktin hefur verið í vörn. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Vegna samdráttar í sölu kindakjöts í sumar er það um sinn fallið niður fyrir svínakjöt á innanlandsmarkaði og er nú í þriðja sæti yfir vinsælustu kjöttegundirnar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Vegna samdráttar í sölu kindakjöts í sumar er það um sinn fallið niður fyrir svínakjöt á innanlandsmarkaði og er nú í þriðja sæti yfir vinsælustu kjöttegundirnar. Það hefur ekki gerst oft frá fyrstu áratugum Íslandsbyggðar að meira væri borðað af svínakjöti en kindakjöti.

Alifuglakjöt hefur í allmörg ár verið vinsælasta kjöttegundin og velti þá kindakjötinu af stalli. Kindakjötið sem lengi var uppistaðan í kjötmeti Íslendinga hefur þó yfirleitt verið annað söluhæsta kjötið á innanlandsmarkaði.

Er þetta ólíkt neyslumynstri í flestum nágrannalöndum þar sem svínakjöt er gjarnan söluhæsta kjötið og kindakjöt ekki ofarlega á lista.

Sölutölur í ágúst sýna 15% samdrátt í sölu á kindakjöti síðustu mánuði og rúmlega 6% samdrátt síðustu tólf mánuði, miðað við sama tímabil þar á undan. Sala á svínakjöti hefur einnig minnkað en þó minna. Það leiddi til þess að svínakjöt var í öðru sæti kjötlistans á tólf mánaða tímabili. Samkvæmt upplýsingum Bændasamtakanna er það sjaldgæft en hefur þó gerst áður. Þannig var sala á svínakjöti meiri en á kindakjöti, á sama mælikvarða, í fimm mánuði sumarið 2009.

Söguleg þróun

Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, bendir á að þessi þróun geti talist söguleg. „Lambakjötið hefur lengi verið ríkjandi kjöttegund hér á landi og því hefur gjarnan verið haldið á lofti að hún hafi haldið lífi í þjóðinni um aldir. Það má til sanns vegar færa. Nú bregður svo við að vegna breyttra aðstæðna og nýrra möguleika fyrir lambakjötið á erlendum mörkuðum, þá hefur lambakjötið gefið eftir á innanlandsmarkaði,“ segir Hörður.

Svínin fjölguðu sér hraðar

Í sögu svínaræktar á Íslandi sem Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðingur tók saman eru leiddar líkur að því að svínakjötið hafi verið helsta kjötmeti landsmanna fyrst eftir landnám. Hann færir meðal annars þau rök fyrir niðurstöðu sinni að landnámsmennirnir hafi ekki getað tekið nema fá húsdýr með sér og svínin verið fljótari að fjölga sér en féð. Stórir flokkar villtra svína hafi gengið um landið. Þá segir hann frá fjölda örnefna sem tengist svínum til marks um að þau hafi verið mikilvægari húsdýr en síðar varð.