Þór Magnússon
Þór Magnússon
Eftir Þór Magnússon: "Varla hefur verið ætlun lagasmiða að undanskilja jarðakaup einstaklinga, en hér virðist samt vera glufa í lögunum."

Baldur Guðlaugsson lögfræðingur skrifaði grein í Morgunblaðið 7. sept. sl. vegna óska Kínverjans Huang Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum, sem mjög hefur verið um fjallað. Birtir hann þar málsgreinar úr lögum nr. 34/1991, um fjárfestingar erlendra á Íslandi, og er að sjá, að í þeim fáu orðum séu gerð skil öllu sem hafi þótt þurfa við. Segir þar: „Fjárfestingar erlends ríkis, sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi efnahags- og viðskiptaráðherra.“

Í greinargerð með lögunum virðast einnig aðeins nefnd „erlend ríki eða fyrirtæki í eigu erlends ríkis.“ – Virðist Baldur telja að með þessari lagagrein hafi íslenzk yfirvöld í hendi sér hvort af slíkum kaupum megi verða, og sama hefur verið haft eftir forsætisráðherra í blöðum, að íslenzkt „lagaumhverfi“ (orðað svo) tryggi fullkomlega að engin óhöpp verði af landsölu af þessu tagi.

Hér sýnist þó vera nokkur brotalöm, ef þetta lagaákvæði er tæmandi. Ekki er nefnt að einstaklingur þurfi að fá slíkt leyfi. Aðeins er nefnt erlent ríki, sveitarfélag eða annað erlent stjórnvald.

Varla hefur verið ætlun lagasmiða að undanskilja jarðakaup einstaklinga, en hér virðist samt vera glufa í lögunum. Kannske hafa kínversk stjórnvöld komið auga á þessa glufu og því þótt vænlegt að láta einstakling leita hófa um landakaup, þar sem erfiðara væri fyrir erlent ríkisvald að eignast landsvæði á Íslandi.

Nefnt hefur verið að Kínverjar hafi keypt stór lönd í Afríku og víðar (til ferðamennsku?) Íslendingar hafa fram að þessu lítt vitað um landakaup útlendinga hérlendis. Að vísu hefur nokkrum sinnum heyrzt að Svisslendingur eigi dal einn austur í Mýrdal; fyrst að hann ætti eina jörð, en nú dalinn allan, og loki hann dalinn af fyrir öðrum en sínu fólki. Nýlega kom hins vegar í fréttum, að 23 útlendingar hefðu fengið leyfi til að kaupa land á Íslandi. Er hér komin af stað skriða? – Hve margar jarðir kunna útlendingar að eiga á Íslandi eftir 50 ár?

Margir hugsa nú um stundargróða. Margt virðist falt fyrir peninga, jafnvel þjóðarauðurinn. Fossar voru seldir útlendingum fyrr á tíð og jarðhitavinnsla nú nýlega.

Þjóðerniskennd sýnist ekki vera ofarlega í huga margra nú um stundir. Jafnvel má ekki minnast á þjóðerniskennd án þess að mönnum sé núið um nasir ofstæki.

Kínverjinn Huang Nubo fær gott orð þeirra sem hann hafa hitt eða kynnzt. En komist stórt landflæmi í kínverskar hendur er ekki afar líklegt að það verði laust í hendi á ný? Ekki verður Huang Nubo eilífur frekar en við hin. Hverjir munu svo taka við þessu landi eftir hann? Ekki er víst að það verði skáld eða náttúruunnendur eða ferðafrömuðir. Þá gæti einnig farið svo, að síðari eigendur kölluðu eftir vatnsréttindum, þótt Nubo kveðist vilja afsala sér þeim. Ekki má víst lengur láta hlunnindi frá jörðum, eins og fyrrum mun stundum hafa verið gert. Rennandi vatnið mun því fylgja jörðinni áfram þótt nýtingu þess verði slegið á frest.

Margir þekkja orðatiltækið „að plata sveitamanninn“. Þá er ekki átt við sveitafólk í venjulegum skilningi, heldur einfeldninga yfirleitt.

Mönnum þykir sumum, sem um þetta mál hafa fjallað, að Grímsstaðir séu með ólíklegri stöðum til afþreyingar ferðamanna. Stundum verður ekkert úr stórum áformum. En einhverjum gæti þótt ágætt að eiga stórt landsvæði á Íslandi, þótt það nýttist ekki alveg í bili.

Höfundur er fv. þjóðminjavörður.