Leiðsögn Kennarinn, ásamt áhugasömum nemendum sínum, hlustar á leiðbeiningar Ara Kristinssonar um bíó.
Leiðsögn Kennarinn, ásamt áhugasömum nemendum sínum, hlustar á leiðbeiningar Ara Kristinssonar um bíó. — Morgunblaðið/Eggert
Í dag, laugardaginn 1. október, klukkan 12 í Bíó Paradís verða frumsýndar stuttmyndir nemenda úr nokkrum grunnskólum sem hafa verið í stuttmyndasmiðju. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík stóð fyrir stuttmyndasmiðju fyrir unglinga í vikunni.

Í dag, laugardaginn 1. október, klukkan 12 í Bíó Paradís verða frumsýndar stuttmyndir nemenda úr nokkrum grunnskólum sem hafa verið í stuttmyndasmiðju. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík stóð fyrir stuttmyndasmiðju fyrir unglinga í vikunni. Nemum úr grunnskólunum var boðið að taka þátt í smiðju þar sem reyndir íslenskir kvikmyndagerðarmenn leiðbeindu þeim. Víkurskóli var einn þeirra skóla sem þáðu boðið frá RIFF. Skarphéðinn Gunnarsson kennari segir að þeir bjóði upp á myndbandanám í skólanum og krakkar úr því námskeiði hafi fengið að fara í þessa smiðju. Fyrst tók tónlistarmaðurinn og handritshöfundurinn Margrét Örnólfsdóttir á móti krökkunum og leiðbeindi þeim með það hvernig skuli koma hugmynd að mynd niður á blað.

„Eftir námskeiðið með Margréti notuðu krakkarnir síðan helgina til að skrifa handritið,“ segir Skarphéðinn. „Á mánudeginum eftir helgina tók kvikmyndatökumaðurinn, framleiðandinn, leikstjórinn og handritshöfundurinn, Ari Kristinsson við þeim og hélt fyrirlestur um hvernig ætti að leikstýra kvikmyndum og hverju þyrfti að huga að á tökustað. Síðan fengu piltarnir hjá okkur frí í skólanum og voru bara í fullri vinnu við þetta næstu fjóra dagana. Þetta er hluti af náminu þeirra. Þeim leiddist þetta svo sannarlega ekki. Þeir voru eins og hefðarmenn í Perlunni, átu ís og teygðu úr sér á meðan þeir undirbjuggu tökurnar. Þetta var samhentur hópur og skipti með sér verkum. Einn var aðallega á bak við kvikmyndatökuvélina, einn var aðallega í leikstjórninni og einn var aðallega að klippa. Það var góð verkaskipting í hópnum. Menn mættu klukkan átta á morgnana og unnu fram á kvöld og jafnvel fram á nótt. Þetta vinnst ekkert öðruvísi. Krakkarnir velta því ekkert mikið fyrir sér hvað þetta er mikil vinna ef þeir eru að gera eitthvað skemmtilegt.

Hópurinn lagði af stað með metnaðarfullt handrit. Sagan er um dreng sem mætir miklu mótlæti í lífi sínu. Verður fyrir hálfgerðu einelti og spurningin er hvernig hann tekur á því,“ segir Skarphéðinn.

borkur@mbl.is