Sigrún Rósa Björnsdóttir: "Í vikunni voru ræddar niðurstöður könnunar starfshóps Menntaráðs Reykjavíkurborgar sem sýnir að nær einn af hverjum fjórum 15 ára drengjum í reykvískum grunnskólum getur ekki lesið sér til gagns."

Í vikunni voru ræddar niðurstöður könnunar starfshóps Menntaráðs Reykjavíkurborgar sem sýnir að nær einn af hverjum fjórum 15 ára drengjum í reykvískum grunnskólum getur ekki lesið sér til gagns. Mikill munur er á milli kynjanna þegar kemur að læsi og ánægju af lestri. Vissulega er vitað að munur er á milli kynjanna þegar kemur að námi en þessar niðurstöður eru sláandi og ástæða til að taka þær alvarlega. Þar er ég ekki aðeins að tala um skólakerfið heldur einnig hlut okkar foreldra í námi barnanna.

Ég sjálf er svo sem enginn aðdáandi heimanáms en lestur er samt nauðsynleg færni í nútímaþjóðfélagi. Og lestur er greinilega ekki sama og lestur.

Það segir sig sjálft að allt bóknám er grundvallað á því að lesskilningur sé fyrir hendi. Hvort sem um er að ræða orðadæmi í stærðfræði, túlkun á inntaki texta í bókmenntum eða fræðilestur.

Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina státað okkur af því að vera bókmenntaþjóð en síðustu árin hefur lestur ungmenna minnkað verulega. Ég vil segja skelfilega.

Ég neita að trúa því að það sé vegna þess að ekki séu til bækur sem séu nógu áhugaverðar og skemmtilegar. Ég hef sjálf verið lestrarhestur frá því að ég lærði að lesa fimm ára gömul og var fljót að komast að því mér til mikillar armæðu að þó að ég sé hraðlæs mun mér aldrei endast ævin til að lesa allar þær bækur sem mig langar til að lesa. Jafnvel þó að ég geri ekkert annað.

Sem móðir þriggja drengja, sá elsti er reyndar orðinn fullorðinn, hef ég sjálf reynt þá alkunnu staðreynd að æfingin skapar meistarann og að það skiptir máli að lesa eitthvað sem börnunum finnst áhugavert. Lesturinn er ekki bara á ábyrgð skólans heldur verð ég sjálf, sem ábyrgt foreldri, að taka ábyrgð á námi barna minna. Ég sá líka mun á lestrargetu og hraða strákanna sem var í réttu hlutfalli við þann tíma sem við foreldrarnir gáfum okkur í lesturinn með þeim. Ég verð að játa að ég var duglegri að sitja með yngsta stráknum mínum og hlusta á hann lesa en þeim í miðið enda sá ég fljótt miklar framfarir hjá þeim stutta og meiri áhuga líka.

Skemmtilegast er þó að lesa fyrir þá og með þeim, efni sem þeir hafa valið sjálfir af bókasafninu. Í bókavalinu endurspeglast áhugasvið þeirra og þar hef ég gengið í gegnum ákveðna endurmenntun. Uppruni og þróun mannsins og alls kyns dýrategunda, risaeðlur og blómatími þeirra krítartímabilið. Óravíddir alheimsins, röðun reikistjarna og stjörnuþokur eru málefni sem þeim eru hugleikin. Ég hef svo sem ekki enn lagt í að lesa Sögu tímans eftir Stephen Hawking með þeim, en þá bók ég las mér til furðu mikillar skemmtunar fyrir tveimur áratugum.

Hins vegar stefnum við á að skoða saman Heimskringlu Snorra Sturlusonar, eftir að hafa heimsótt Snorrastofu í Borgarfirði og þeir lært þar að J.R.R. Tolkien leitaði í smiðju Snorra við skrif Hringadróttinssögu. sigrunrosa@mbl.is

Sigrún Rósa Björnsdóttir