Jón Óskar rifjaði upp í einni minningabók sinni, Gangstéttum í rigningu , þegar hann sat á kaffihúsum með öðrum róttækum æskumönnum um miðja tuttugustu öld: „Ég uppgötvaði það smám saman, að til var á Íslandi ein merkileg grýla, sem var ýmist...

Jón Óskar rifjaði upp í einni minningabók sinni, Gangstéttum í rigningu , þegar hann sat á kaffihúsum með öðrum róttækum æskumönnum um miðja tuttugustu öld: „Ég uppgötvaði það smám saman, að til var á Íslandi ein merkileg grýla, sem var ýmist fáránlega heimsk eða slóttug og illvíg: Hún hét Morgunblaðið.“ Þessum kaffihúsaspekingum var tamt orðið „Morgunblaðslygin“. Sú lygi var í fæstum orðum, að alræði væri í Ráðstjórnarríkjunum, eymd og kúgun, en valdhafar þess árásargjarnir.

Fyrsta dæmið, sem ég finn um notkun orðsins „Morgunblaðslygi“ í þessari merkingu, var í málgagni Kommúnistaflokks Íslands, Verklýðsblaðinu , 4. mars 1935. Þar var andmælt þeirri frétt, sem Morgunblaðið hafði birt eftir skeytum frá Kaupmannahöfn, að einn forystumaður Ráðstjórnarríkjanna, Andrej Andrejev, yrði brátt leiddur fyrir rétt. Raunar var sú frétt sennilega ekki á rökum reist. Andrejev lifði af hreinsanir Stalíns, enda dyggur stalínisti. En margar og raunar flestar aðrar fréttir Morgunblaðsins af ógnarstjórn Stalíns reyndust réttar.

Styttingin „Moggalygi“ er yngri. Jóhannes úr Kötlum notaði hana til dæmis, þegar hann rifjaði í Þjóðviljanum 7. mars 1963 upp hina frægu ræðu Khrústsjovs um Stalín: „Eg held maður muni þá tíð þegar félagi Nikíta gerði stalínpersónuna miklu að einni allsherjar sorptunnu og fjörtíu ára moggalygi var þar með orðin pravda.“ (Pravda merkir sannleikur á rússnesku.)

Lokaorðin um Morgunblaðslygina átti síðan Össur Skarphéðinsson, þá ritstjóri og síðar ráðherra. Eins og ég rek í bók um íslensku kommúnistahreyfinguna beitti Össur sér fyrir því á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins í annarri viku febrúar 1990, að Alþýðubandalagið harmaði opinberlega fyrri samskipti sín og forvera sinna (kommúnistaflokks Íslands og Sósíalistaflokksins) við kommúnistaríkin. Hvatti hann til uppgjörs við fortíðina og sagði: „Hin beiska staðreynd er sú, að Morgunblaðið hafði rétt fyrir sér varðandi Austur-Evrópu.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is