Athöfn „Ég finn mikið fyrir Íslendingnum í mér,“ sagði Erling Blöndal Bengtsson við athöfnina í gær.
Athöfn „Ég finn mikið fyrir Íslendingnum í mér,“ sagði Erling Blöndal Bengtsson við athöfnina í gær. — Morgunblaðið/Kristinn
Róbert B. Róbertsson robert@mbl.is Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari afhenti Tónlistarsafni Íslands til varðveislu fyrsta sellóið sem hann eignaðist sem barn. Afhendingin fór fram við formlega athöfn í Tónlistarsafni Íslands í gær.

Róbert B. Róbertsson

robert@mbl.is

Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari afhenti Tónlistarsafni Íslands til varðveislu fyrsta sellóið sem hann eignaðist sem barn. Afhendingin fór fram við formlega athöfn í Tónlistarsafni Íslands í gær.

Í ræðu sem Erling hélt við athöfnina sagði hann að hann hefði alist upp á miklu tónlistarheimili.

,,Faðir minn var fiðluleikari og gaf mér fiðlu þegar ég var þriggja ára. En þegar ég ætlaði að spila á fiðluna vildi ég alltaf hafa hana milli fóta mér eins og selló. Því ákváðu foreldrar mínir að láta smíða fyrir mig selló,“ sagði Erling. Þetta sama selló afhenti hann Tónlistarsafni Íslands í gær.

Danskur fiðlusmiður, Hans Dahl að nafni, smíðaði sellóið í Kaupmannahöfn og lék Erling fyrst á það á tónleikum árið 1936 þá fjögurra ára gamall. Sellóið ásamt myndum og öðrum munum sem Erling hefur ákveðið að afhenda safninu verður almenningi til sýnis frá og með mánudeginum 3. október.

Finn fyrir Íslendingnum í mér

Allt frá fyrstu árum sínum sem sellóleikari hefur Erling heimsótt Ísland og haldið hér tónleika. Erling er af íslenskum ættum en móðir hans Sigríður Nielsen var ættuð frá Ísafirði.

Aðspurður hvers vegna Erling hafi ákveðið að afhenda Tónlistarsafni Íslands sellóið sagði hann að Ísland hafi verið honum mikils virði allt hans líf.

,,Tónlistarlíf mitt hefði ekki verið eins án Íslands,“ sagði Erling. ,,Það voru Íslendingar sem styrktu mig ungan mann til náms við Curtis Institude í New York og kann ég þeim miklar þakkir. Nú svo er ég hálfur Íslendingur. Móðir mín var frá Ísafirði og ég finn mikið fyrir Íslendingnum í mér þannig að mér fannst það rökrétt að afhenda Tónlistarsafni Íslands sellóið.“