Bragi Einarsson fæddist á Ísafirði, 26. maí 1932. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 25. september 2011.

Foreldrar hans voru Einar Kristbjörn Garibaldason sjómaður, f. 1889, d. 1968, og Margrét Jónína Einarsdóttir, f. 1895, d. 1959. Systkini Braga voru þau Einar Garibaldi, f. 1919, d. 1969, Hannibal Guðmundur, f. 1920, d. 1988, Óskar Pétur, f. 1920, d. 1996, Lúðvík, f. 1921, d. 1997, Jónína Margrét, f. 1927, d. 2001, og Baldur, f. 1932, sem er einn eftirlifandi þeirra systkina.

Afi Braga í föðurætt var Garibaldi Einarsson, bóndi og sjómaður, sem fórst ásamt konu sinni Margréti, þremur börnum þeirra og fleira heimilisfólki, alls 7 manns, í snjóflóði í Engidal í Úlfsdölum, norðan við Siglufjörð í apríl 1919.

Eftirlifandi kona Braga er Gróa Aradóttir, f. 1935 á Ísafirði. Foreldrar hennar voru þau Guðrún Ágústa Steinþórsdóttir og Ari Hólmbergsson. Bragi og Gróa eignuðust fjögur börn: 1) Guðrún Ágústa, f. 1956. Maður hennar er Hallur Páll Jónsson, f. 1948. Þeirra synir eru Bragi, f. 1976, d. 1998, og Haukur, f. 1989. 2) Einar Daníel, f. 1957. Synir hans og Helgu Árdísar Kristiansen, f. 1965, eru Marteinn Már, f. 1993, Bragi, f. 1995, og Baldur, f. 1995. 3) Margrét Jónína, f. 1959. Maður hennar er Sveinn Sigurður Sveinsson, f. 1957. Þeirra börn eru Sveinn Bragi, f. 1983, Íris Gróa, f. 1987, og Garibaldi, f. 1993. Dóttir Írisar er Margrét Rún Steindórsdóttir, f. 2007. 4) Ólína Bragadóttir f. 1960. Sambýlismaður hennar er Ture Johansson. Synir hennar eru Örvar Ari Bjarnason, f. 1979, og Einar Þór Birgisson, f. 1990. Dóttir Örvars er Anna Lína, f. 2011, og sonur Einars Þórs, er nýfæddur og óskírður, f. 2011.

Bragi Einarsson fór ungur til sjós, aðeins 15 ára og hafði verið sjómaður samfellt í um það bil hálfa öld, þegar hann lét af því starfi og settist í helgan stein. Hann var háseti, bátsmaður, stýrimaður og skipstjóri á fjölda báta og skipa. Þar komu m.a. við sögu skip eins og Finnbjörn og Mímir, síðutogararnir Ísborg og Sólborg, Straumnesið, Gunnvör, Hrönn og síðast en ekki síst skuttogarinn Júlíus Geirmundsson, eitt af helstu aflaskipum flotans. Sjómennska Braga var fjölbreytt, náði yfir landróðrabáta, síldarbáta, síðutogara og skuttogara. Veiðigreinarnar voru allt frá skaki og línuveiðum, rækjuveiðum, síldveiðum og snurvoð, til úthafskarfaveiða og botnvörpuveiða. Veiðisvæðin ekki einungis utan við Vestfirði eða þvert um íslenska landhelgi, heldur líka fjarlæg mið: Grænland, Nýfundnaland og Smugan. Fyrir ævistarf sitt var Bragi heiðraður á sjómannadaginn á Ísafirði fyrir fimm árum.

Útför Braga fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, laugardaginn 1. október 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú þegar haustar mætir gamall maður örlögum sínum og kveður ættingja og vini. Að baki er löng starfsævi, sjómennska í hálfa öld, lengi framan af við mun erfiðari starfsskilyrði en tíðkast í dag. Það þarf mikið úthald og þrek til að stunda svo erfið störf við óblíða náttúru nærfellt alla ævi. Aldrei var þó kvartað undan erfiði, vosbúð eða vinnuaðstæðum. Sá sem hefur verið svo langan tíma til sjós er bundinn undarlega sterkum böndum við hafið. Það hefur sett mark sitt og mót á manninn og hverfur aldrei úr sinni. Samt fer svo að lokum að jafnvel hinn hraustasti sjómaður verður að taka pokann sinn.

Bragi gat sér sérdeilis gott orð sem skipsfélagi, fyrir dugnað og ósérhlífni og gott lundarfar; eiginleika sem við viljum helst að samstarfsmenn okkar allir hafi. Hann var glettinn og léttlyndur að eðlisfari og farsæll í starfi. Hann var traustur og vandur að virðingu sinni, öldungis laus við allt prjál og bruðl. Hann var einstaklega ljúfur afi sem barnabörnin öll minnast með virðingu og söknuði, og ekki síður minnast þau þeirra mörgu skemmtilegu daga er þau gistu hjá ömmu og afa á Ísafirði, og upplifðu þar margskyns ævintýri. Hann var sérdeilis góður nafna sínum og elsta barnabarni og minnisstætt er þegar afi kom úr einni sjóferðinni frá Þýzkalandi, færandi hendi dýrindis reiðhjól, tvímenningshjól svo blindur nafni hans gæti hjólað eins og aðrir krakkar.

Bragi hafði yndi af ferðalögum og fóru þau Gróa í ótal ferðir erlendis, oft með skipsfélögum af Júlíusi Geirmundssyni eða með börnum og barnabörnum. Minnið fór smám saman að gefa sig síðustu árin, en því sló Bragi auðvitað upp í grín og henti gaman að öllu, allt fram á síðasta dag.

Bragi og Gróa bjuggu alla tíð á Ísafirði, ef frá eru talin sex ár í Kópavogi fyrir fáeinum árum. Þá kom á daginn að Ísafjörður var sú ramma taug sem hlaut að draga þau til sín aftur. Enginn slítur þau bönd sem hann er bundinn heimahögum sínum. Lengst af var heimili þeirra í Aðalstræti 10, en síðustu árin á Urðarvegi 80, þaðan sem vel sést yfir Skutulsfjörðinn. Nú situr þar ekki lengur gamall sjómaður við stofugluggann og skyggnist um til að fylgjast með ferðum skipa um höfnina. Hann röltir ekki lengur með sixpensarann, ögn hokinn í baki, niður á bryggju að hitta gamla félaga; hann er sjálfur lagður af stað í sína hinstu ferð.

Ég vil að leiðarlokum þakka tengdaföður mínum, Braga Einarssyni, ljúfa samfylgd, greiðvikni, umhyggju fyrir barnabörnum og einstaklega góð kynni alla tíð.

Hallur Páll Jónsson.

Ég minnist afa míns sem fallegs manns, glaðlynds og hjartahlýs. Mér er minnisstætt þegar við sátum tveir í sólinni við Miðjarðarhafið fyrir ekki svo löngu og ræddum um fólk og fiska og hann sagði mér sögur að vestan, frá sjómennskunni og lífinu á Bökkunum. Við höfðum farið með mömmu og ömmu til Krítar, fyrir þremur sumrum. Þrátt fyrir þverrandi heilsu og hrakandi minni tapaði hann aldrei lífsgleðinni og jákvæðninni og naut þess að sitja í sólinni og vaða í sjónum, rétt eins og við nutum samverunnar í síðustu utanlandsferðinni hans, sem höfðu verið fjölmargar á lífsleiðinni.

Ég minnist þess nú er ég ungur drengur heimsótti afa og ömmu vestur á Ísafjörð, í Downing Street eins og það var kallað, Aðalstræti 10, þar sem amma og afi bjuggu lengst af. Við áttum það leyndarmál krakkarnir með afa hvar amma faldi suðusúkkulaðið og þrátt fyrir að hann hafi ekki þekkt eldhússkápana jafn vel og fiskimiðin rann hann alltaf á lyktina og laumaði að okkur afasúkkulaðinu án þess að amma sæi til. Hann fór með mig niður á smábátahöfn að dorga, um borð í Júllann þar sem hann sýndi mér allt milli stefnis og skuts. Borgarbarni eins og mér þótti þetta bæði framandi og spennandi heimur.

Ég sé hann afa ljóslifandi fyrir mér þar sem hann gengur Aðalstrætið broshýr og stígur ölduna og mig að herma eftir göngulaginu sem mér þótti svo flott. Hann kunni að sjá það fallega í fólki og jafnan jákvæðu hliðina á tilverunni. Ég virði hann fyrir lífsviðhorf sitt sem einkenndist af hlýhug til annars fólks og hversu góður hann var honum bróður mínum verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir.

Þótt það væri sárt var gott að fá að kveðja hann daginn sem hann fór. Hvíl í friði afi minn.

Haukur Hallsson.