Bára Sigurjónsdóttir
Bára Sigurjónsdóttir
Eftir Báru Sigurjónsdóttur: "Reykingaryk er bæði örsmáar agnir úr tóbaksreyk og ósýnilegur reykur er safnast fyrir og veldur mengun í umhverfi þar sem reykt er."

Skaðsemi reykinga og óbeinna reykinga er óumdeilanleg og hefur verið þekkt um áraraðir. Nýjar rannsóknir eru nú að líta dagsins ljós og beina athygli okkar að skaðsemi svokallaðs reykingaryks (3rd-hand smoke). Nú hefur eiturefnaögnunum sem verða eftir í umhverfinu eftir reykingar verið gefið nafnið reykingaryk.

Reykingaryk er bæði örsmáar agnir úr tóbaksreyk og ósýnilegur reykur. Þessar leifar af reykingum valda mengun sem safnast fyrir í umhverfi þar sem reykt er, hvort sem um bíl eða húsnæði er að ræða. Mengandi efni úr sígarettureyknum sitja eftir í efnum eins og fatnaði, húsgögnum, gardínum, á veggjum, í teppum, í hári og húð þess sem reykir og í ryki í herbergjum og bílum löngu eftir að þar hefur verið reykt. Ekki er hægt að losna við þessar rykagnir með því að lofta út, láta eldhúsviftuna ganga eða með því að reykja eingöngu í ákveðnum herbergjum í íbúðinni.

Börn eru viðkvæmari fyrir reykingaryki en fullorðnir vegna þess að lungu þeirra og heili eru að vaxa og þroskast. Börn geta andað að sér þessum efnum og borðað þau og rannsóknir benda til þess að reykingaryk geti frásogast í gegnum húð. Ungbörn og lítil börn eru sérstaklega viðkvæm og berskjölduð fyrir reykingaryki vegna þess hvernig þau kanna umhverfi sitt, jafnvel á fjórum fótum, með því að bragða á eða sjúga og naga hluti með menguðu yfirborði eins og á gólfum, húsgögnum og leikföngum.

Rannsóknir sýna fram á að börn geta andað að sér þessum örsmáu rykögnum þegar einhver sem reykir annast þau þótt hún/hann sé ekki að reykja nálægt barninu. Þetta stafar af því að reykingarykið sest í húð og hár ásamt fatnaði þess sem reykir og berst þannig til barnsins. Mælingar á cotinine í þvagi hjá börnum hafa sýnt fram á þetta.

Þegar móðir með barn á brjósti reykir berast efni úr tóbaki til barnsins með móðurmjólkinni. Samt sem áður er mælt með því að þær mæður sem reykja meðan þær hafa barn á brjósti geri það frekar en að gefa barninu þurrmjólk vegna verndandi þátta sem fylgja móðurmjólkinni. Mikilvægt er að verðandi mæður sem umgangast aðra sem reykja viti um þá áhættu sem tengist óbeinum reykingum og reykingaryki og geri þeim sem reykja í kringum þær ljóst hvaða áhrif reykingar geta haft á ófædda barnið.

Verið er að rannsaka hversu skaðlegt reykingaryk getur verið, en rannsóknir benda til þess að þegar reykingaryk safnast fyrir í töluverðu magni geti það verið krabbameinsvaldandi. Rannsóknir hafa þegar sýnt tengsl milli lestrarerfiðleika hjá börnum og magns reykingaryks í umhverfi þeirra og er það talið stafa af blýmagni í reykingarykinu.

Að verja börn fyrir áhrifum reykingaryks

Eina leiðin til að verja börn fyrir skaðsemi reykinga og reykingaryks er að umhverfi þeirra sé algjörlega reyklaust, hvort sem það er inni á heimilinu, í dagvistun, á vinnustað eða í fjölskyldubílnum.

Jafnvel það að reykja utandyra eða undir viftu er engin trygging gegn því að skaðleg efni setjist á húð og hár viðkomandi og á fötin hans. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fáir foreldrar vita af þessari hættu og því er verið að vekja athygli íslenskra foreldra á þessum rannsóknum svo þeir geti varið börn sín fyrir áhrifum reykingaryks með því að leyfa engar reykingar í umhverfi barna sinna.

Það eru engin örugg mörk fyrir áhrifum af tóbaksreyk.

Höfundur er sérfræðingur í barnahjúkrun og verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis