Áð við Háborgarvörðu Gott útsýni er yfir Hólmavík og Steingrímsfjörð.
Áð við Háborgarvörðu Gott útsýni er yfir Hólmavík og Steingrímsfjörð. — Ljósmynd/Ingibjörg Emilsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Kristín Sigurrós Einarsdóttir Hólmavík Göngudagur fjölskyldunnar var haldinn í Strandabyggð sem og annars staðar á landinu á fimmtudaginn. Gengið var um Kálfanesborgir og stóð gangan í rúman klukkutíma með nestisstoppi.

ÚR BÆJARLÍFINU

Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Hólmavík

Göngudagur fjölskyldunnar var haldinn í Strandabyggð sem og annars staðar á landinu á fimmtudaginn. Gengið var um Kálfanesborgir og stóð gangan í rúman klukkutíma með nestisstoppi. Göngustígurinn um Kálfanesborgir ofan við Hólmavík er gríðarvinsæll, bæði meðal heimamanna og ferðamanna. Hann var upphaflega lagður af unglingum í unglingavinnunni fyrir rúmum 15 árum og hefur reglulega verið endurnýjaður síðan. Hæsti punktur leiðarinnar er Háborgarvarða sem er í um 125 metra hæð og þaðan og víðar á leiðinni gefst gott útsýni yfir þorpið Hólmavík og Steingrímsfjörð.

Miklar framkvæmdir standa yfir á hafskipabryggjunni á Hólmavík þessa dagana. Verið er að reka niður stálþil um bryggjuhausinn. Þilið var áður notað við byggingu tónlistarhússins Hörpunnar í Reykjavík og var þaðan flutt til Hólmavíkur fyrir nokkrum vikum. Þilið er rúmir 120 metrar á lengd og verður rekið niður utan við núverandi þil og síðan fyllt á milli. Fyrirtækið Ísar ehf. í Reykjavík átti lægsta tilboð í verkið, en það hljóðaði upp á tæpar 36 milljónir. Nokkrir undirverktakar af svæðinu munu einnig koma að verkinu. Verlok eru áætluð 1. mars 2012.

Forsvarsmenn orkufyrirtækisins Vesturverks ehf. hafa gert samstarfsamning við Vatnsfall, fagfjárfestasjóð á vegum fjármálafyrirtækisins GAMMA, um fjármögnun á áframhaldandi undirbúningsvinnu vegna allt að 40 MW vatnsaflsvirkjunar í Ófeigsfirði á Vestfjörðum. Þetta kom fram á vefnum strandir.is í vikunni. Virkjunin yrði langöflugasta virkjun á Vestfjörðum. Áætlað hefur verið að hún kosti allt að 15 milljarða króna og að rúmlega 300 ársverk þurfi til að byggja hana. Virkjunin er ein af fimm vatnsaflsvirkjunum í nýtingarflokki samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu. Búið er að ná samstöðu um framkvæmdina meðal landeigenda og eigenda vatnsréttinda.

Starfsmenn Strandabyggðar gerðu sér glaðan dag í gær og komu saman á starfsdegi í félagsheimilinu á Hólmavík í hádeginu í gær. Byrjað var á að snæða dýrindissúpu og síðan farið í hópefli undir stjórn Ingibjargar Valgeirsdóttur sveitarstjóra. Um kvöldið var starfsmannagleði á Café Riis þar sem snædd var dýrindismáltíð að hætti Báru og Kidda. Nokkrir vinnustaðir komu með tilbúin skemmtiatriði sem vöktu að vonum mikla kátínu. Eftir mat og skemmtiatriði var stiginn dans fram á nótt.