Mengunarslys á norðurslóðum gætu haft hrikalegar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg

Íslensk stjórnvöld hafa gert málefni norðurslóða að forgangsverkefni íslenskrar utanríkisstefnu. Ísinn á norðurskautinu er að bráðna og þynnast og við það opnast siglingaleiðir og möguleikar á að komast að auðlindum á borð við olíu og gas.

Fimm strandríki gera kröfur um landgrunnsréttindi í Norður-Íshafi. Ísland er ekki þeirra á meðal, en byggir tilkall sitt til að hafa sitt að segja á því að vera að hluta innan norðurskautssvæðisins.

Um tíma virtust ríkin fimm ein ætla að ráða ráðum sínum um norðurslóðir. Nú bendir allt til þess að Norðurskautsráðið verði vettvangur viðræðna um þær og þar eru Íslendingar innanborðs.

Fyrir rúmri viku héldu Rússar ráðstefnu um málefni norðurslóða í Arkangelsk. Þar var talað um að gæta þyrfti alls jafnvægis í umgengni á norðurslóðum, hvort sem um væri að ræða siglingar eða nýtingu auðlinda. Náttúra norðursins væri viðkvæm og sömuleiðis samfélög þeirra fjögurra milljóna manna, sem nyrst búa.

Það er til marks um þá áherslu, sem Rússar leggja á norðurslóðamál, að Vladimír Pútín forsætisráðherra flutti ræðu á ráðstefnunni. Athygli vakti að hann sá ástæðu til að draga í efa að breytingarnar á norðurslóðum væru að einhverju leyti af mannavöldum. Vekur það spurningar um hvernig eigi að túlka orð hans um sjálfbærni ef hann telur einu gilda um áhrifin af athafnasemi mannsins á þessum slóðum.

Hér hafa heyrst raddir um að á Íslandi gæti orðið til risavaxin uppskipunarhöfn, sem yrði miðstöð flutninga milli Asíu annars vegar og Evrópu og Bandaríkjanna hins vegar. Í þessu kunna að felast möguleikar, en hafnarmannvirki með tilheyrandi innviðum kosta sitt og ljóst að fleiri munu vilja vera um hituna. Á ráðstefnunni kom fram að styrkja ætti innviði í Rússlandi til að geta tekið á móti auknum siglingum, auk þess sem Norðmenn vilja bita af kökunni.

Hagsmunir Íslendinga liggja fyrst og fremst í því að á norðurslóðum sé traust björgunar- og slysavarnakerfi og grannt eftirlit með því að ýtrustu varkárni sé gætt við nýtingu auðlinda. Mengunarslys á norðurslóðum gætu haft hrikalegar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með íslenskt efnahagslíf. Það er ekki síst út af þeim hagsmunum, sem Íslendingar gera tilkall til að taka þátt í að móta framtíð norðurslóða.