Sveinn Skorri Höskuldsson
Sveinn Skorri Höskuldsson
Snorrastofa og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands standa fyrir dagskrá í dag, í Skemmunni á Fitjum í Skorradal, til minningar um Svein Skorra Höskuldsson prófessor.

Snorrastofa og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands standa fyrir dagskrá í dag, í Skemmunni á Fitjum í Skorradal, til minningar um Svein Skorra Höskuldsson prófessor. Rithöfundurinn og fræðimaðurinn Sveinn Skorri skilaði samfélagi sínu margvíslegum ávöxtum í formi bóka og rannsókna, en hann bar uppruna sínum fagurt vitni og þeirri togstreitu sem fólst í því að hafa verið Borgfirðingur í móðurætt og Þingeyingur í föðurætt, að því er fram kemur í tilkynningu. Dagskráin hefst kl. 14 og stendur til kl. 17 og koma að henni samstarfsmenn, nemendur og ættingjar Sveins og ábúendur á Fitjum í Skorradal en Fitjar voru vettvangur í sagnaheimi hans.

Páll Valsson íslenskufræðingur flytur erindi um ritstörf Sveins og fræðimennsku; Ásta Kristín Benediktsdóttir doktorsnemi fjallar um bók hans Svipþing; systir Sveins, Sigríður Höskuldsdóttir, bregður upp myndum úr foreldrahúsum og Þormóður Sveinsson sonur hans les upp úr Svipþingi. Þá munu Árni Björnsson dr. phil og Jónas Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar, flytja minningabrot af kynnum sínum við Svein Skorra.

Tónlistaratriði verða einnig í boði og dagskrárstjóri verður Bergljót S. Kristjánsdóttir prófessor. Sveinn Skorri lést 7. september árið 2002.