Grísk mótmæli Jón Daníelsson hagfræðingur telur að óbreytt ástand á evrusvæðinu muni grafa undan hagvaxtarhorfum til frambúðar.
Grísk mótmæli Jón Daníelsson hagfræðingur telur að óbreytt ástand á evrusvæðinu muni grafa undan hagvaxtarhorfum til frambúðar. — Reuters
Gangi Evrópusambandið ekki hreint til verks við afskriftir Grikklands og hugsanlega Portúgals gæti landsframleiðsla á evrusvæðinu orðið fimmtungi minni eftir tuttugu ár.

Gangi Evrópusambandið ekki hreint til verks við afskriftir Grikklands og hugsanlega Portúgals gæti landsframleiðsla á evrusvæðinu orðið fimmtungi minni eftir tuttugu ár. Þetta kemur fram í grein hagfræðinganna Jóns Daníelssonar hjá London School of Economics og Caspers de Vries hjá Erasmus School of Economics, sem birtist á ritstjórnarsíðu ítalska blaðsins La Repubblica í gær.

Munar 22% af landsframleiðslu á tuttugu árum

Þeir Jón og de Vries segja að að öllu óbreyttu standi Evrópa frammi fyrir sömu örlögum og Japan gerði við upphaf tíunda áratugarins. Haldi ráðamenn áfram að fresta vandanum með handahófskenndum aðgerðum meðan óvissan vex um fjármálastöðugleikann á evrusvæðinu sé hætt við því að framundan sé áratugur verðhjöðnunar og að bankakerfið verði að uppvakningi. Evrópski seðabankinn sé nú þegar orðinn lánveitandi bankakerfisins á evrusvæðinu til þrautavara og veigamikill kaupandi að ríkisskuldabréfum verst stöddu evruríkjanna. Þetta hafi leitt til vítahrings sem þurfi að rjúfa.

Jón og de Vries segja að það verði einungis gert með stýrðu greiðslufalli Grikklands og jafnvel Portúgals samhliða endurfjármögnun bankakerfisins og tímabundnum úrræðum til þess að tryggja greiðsluflæði stórra hagkerfa á borð við Ítalíu og Spán. Samkvæmt útreikningum þeirra myndi þetta leiða til þess að landsframleiðsla á evrusvæðinu yrði 22% hærri en ella eftir tvo áratugi.

ornarnar@mbl.is